S&P býst við 7,5 prósent samdrætti

16.05.2020 - 08:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P hefur staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands með stöðugum horfum. S&P reiknar með um 7,5 prósent samdrætti landsframleiðslu á yfirstandandi ári vegna neikvæðra áhrifa Covid-19 á ferðaþjónustu. Fyrirtækið telur að hagstæð skuldastaða hins opinbera veiti viðspyrnu við því áfalli sem kórónufaraldurinn hefur á íslenskt efnahagslíf.

Það er athyglisvert að í þessu nýja mati S&P er gert ráð fyrir umtalsvert minni samdrætti en Hagfræðideild Landsbankans og Íslandsbanki spá, en báðir bankarnir birtu nýjar þjóðhagsspár í vikunni. Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir tæplega 9 prósent samdrætti á árinu, en Íslandsbanki býst við rúmlega 9 prósent samdrætti. 

Fram kemur í fréttatilkynningu S&P að lánshæfismat ríkissjóðs gæti hækkað ef staða opinberra fjármála og erlend staða þjóðarbúsins styrkist verulega umfram það sem fyrirtækið gerir ráð fyrir. Hraðari viðsnúningur en gert er ráð fyrir getur dregið úr skuldsetningu og næmni gagnvart ytri áhættuþáttum. Þá gæti lánshæfismat ríkissjóðs lækkað ef samdráttur í efnahagslífi vegna Covid-19, mun vara lengur en gert er ráð fyrir, til að mynda vegna lengri og dýpri niðursveiflu í ferðaþjónustu.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV