Leigubílstjórar ósáttir við frumvarp Sigurðar Inga

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Leigubílstjórar eru ósáttir við frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að þeir geti skilað inn atvinnuleyfum sínum til að geta skráð sig á atvinnuleysisskrá. Það kemur fram í umsögn Bifreiðastjórafélagsins Frama og Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra um frumvarpið. Þar segir að frumvarpið virðist snúast um að greiða ekki hlutabætur til leigubílstjóra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti fyrir frumvarpinu, á Alþingi á mánudag. Hann sagði að margir leigubílstjórar hefðu lagt inn atvinnuleyfi sitt tímabundið vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Þar með hafa þeir getað sótt um atvinnuleysisbætur. Sú heimild er þó bundin við að leigubílstjórar hafi keyrt leigubíl í minnst tvö ár. Sigurður Ingi sagði að leigubílstjórar sem hefðu starfað í skemmri tíma en tvö ár væru í erfiðri stöðu. Því legði hann til að þeir gætu líka skilað inn atvinnuleyfinu og sótt um atvinnuleysisbætur. 

Málið er komið til umhverfis- og samgöngunefndar sem óskaði eftir umsögnum frá tólf félögum, fyrirtækjum og stofnunum í vikunni. Bifreiðastjórafélagið Frami og Bandalag íslenskra leigubílstjóra voru fljót að skila inn sameiginlegri umsögn. Þar segir að enginn innan þeirra raða hafi óskað eftir þessari lagabreytingu og þar séu þó um 400 af 670 leyfishöfum í leigubílarekstri. 

Í umsögn félaganna tveggja segir að heimildin nýtist fæstum þar sem ekki sé hægt að skrá leigubíl úr rekstri án þess að endurgreiða tollayfirvöldum vörugjöld sem leigubílstjórar hafa fengið niðurfelld. Félögin telja betri kost að ekki verði gefin út fleiri atvinnuleyfi leigubílstjóra að svo stöddu vegna minnkandi eftirspurnar eftir þjónustu leigubíla. Þau vilja líka að tekið verði á ólöglegum akstri fólks sem þiggi greiðslu fyrir að skutla öðrum og auglýsi þjónustu sína á Facebook.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV