Gætu orðið nokkur flug á dag eftir 15. júní

Mynd með færslu
 Mynd: Isavia
Búast má við að Wizz Air verði það flugfélag sem fyrst byrjar að fljúga til Íslands fyrir utan Icelandair þegar landamærin verða opnuð. Þetta segir ritstjóri ferðavefsins Túrista sem á von á tveimur til fjórum vélum hingað á dag seinnihluta júní. Hann telur að um næstu mánaðamót verði fleiri komnir með kjark til að ferðast.

21 flugfélag ætlaði að fljúga hingað í sumar

Stóra spurningin er hvenær ferðamenn og aðrir gestir fara að koma hingað fyrir alvöru. Eina sem er öruggt með flug til landsins frá 15. júní er framlengdur samningur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við Icelandair til 27. júní. Það eru tvö flug í viku til þriggja áfangastaða; Boston, Lundúna og Stokkhólms. Í sumar var hins vegar 21 flugfélag með Ísland sem fastan áfangastað. 

„Ennþá á maður eftir að sjá að erlend flugfélög setji Íslandsflug á þannig að maður treysti að það verði á dagskrá,“ segir Kristján Sigurjónsson ritstjóri ferðavefjarins túristi.is.

Ísland ekki með hjá Lufthansa

Lufthansa er ein flugfélagið, sem var með Ísland á dagskrá, sem búið er að birta áætlun sína í júní og Ísland er ekki í þeirri áætlun. Kristján segir að önnur flugfélög eigi eftir að birta örugga áætlun.

Bandarísku flugfélögin Delta, American Airlines og United Airlines eru búin að afskrifa Ísland úr sumaráætlun sinni og líka Air Canada.

Wizz Air líklega fyrst á eftir Icelandair

Í fyrrasumar var Wizz Air með flest flug til Keflavíkur að Icelandair frátöldu. 
 
„Það flugfélag stendur vel og hefur vilyrði fyrir styrkjum frá breska ríkinu. Það er svona eftir að sjá til hvernig flugfélagið fer af stað. Það er aðeins byrjað að fljúga. Maður kannski býst við að það verði það flugfélag sem fari kannski einna fyrst af stað.“

Helmingur flugfélaga búin að fá ríkisstuðning

Kristján segir að ellefu af þess 21 flugfélagi, sem var með Ísland á áætlun, annað hvort hafa fengið aðstoð frá stjórnvöldum í sínum löndum eða fengið vilyrði um lán. Tíu félaganna séu í svipaðri stöðu og Icelandair. 

„Þetta svona mjakast í þá áttina að ríkið komi þessum félögum til aðstoðar.“ 

2 til 4 flug á dag seinnihlutann í júní

Ef allt gengur snurðulaust með sýnatökur úr komufarþegum í Leifsstöð á Kristján von á því að Icelandair fljúgi á þá áfangastaði sína sem eru vel bókaðir enda þurfi félagið þá ekki að endurgreiða þeim farþegum sem ákveða að nýta ekki flugið. En hann á von á því að strax upp úr miðjum júní verði meira en eitt flug á dag: 

„Það er vonandi að það verði einhverjar tvær, þrjár, fjórar. En það var ein að jafnaði á dag í apríl og það hlýtur að vera möguleiki að fylla fleiri vélar í júní. Og svo gerir maður bara ráð fyrir því að þessi mál skýrist kannski í næstu viku og þarnæstu og fleiri hafi þá kjark í að ferðast. Þannig að það kannski verður þannig að það verður búið að telja kjark í miklu fleiri um næstu mánaðamót.“

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is. Mynd:
Kristján Sigurjónsson.