Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bankar vara við pakkaferðafrumvarpi ráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Monica Silvestre - Pexels
Arion banki og Íslandsbanki vara báðir við hættu sem þeir segja fólgna í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra. Frumvarpið heimilar ferðaskrifstofum og flugfélögum að endurgreiða fólki með inneignarnótu í stað peninga fyrir pakkaferðir sem ekki voru farnar vegna COVID-19 faraldursins. Lögmenn bankanna segja þetta geta kollvarpað rétti fólks til endurgreiðslu hjá kortafélögum.

Inneignarnótan gildir í ár, samkvæmt frumvarpinu, en að því loknu á fólk rétt á að fá ferðina endurgreidda hafi inneignarnótan ekki verið nýtt. Lögmenn Arion banka og Íslandsbanka vara við því í umsögnum að þetta geti rýrt réttindi neytenda. Viðskiptavinir geta nú sótt um endurgreiðslu hjá útgefanda greiðslukorta vegna ferða sem ekki voru farnar. Til þess hafa þeir átján mánuði frá því greitt var fyrir ferðina.

Segja fólk geta misst rétt hjá kortafélögum

Lögmennirnir segja að frumvarp ráðherra geti haft tvenns konar áhrif. Annars vegar að fólk geti ekki sótt um endurgreiðslu hjá kortafyrirtæki fyrr en að árinu liðnu og þá er fresturinn til að krefjast endurgreiðslu í mörgum tilfellum liðinn. Það er vegna þess hversu tímanlega margir greiða fyrir ferðalög sín. Hin hættan er að með útgáfu inneignarnótanna geti verið komið í veg fyrir að fólk geti uppfyllt eitt skilyrðanna fyrir endurgreiðslu frá kortafyrirtæki. Það skilyrði er að fólk hafi óskað eftir endurgreiðslu frá seljanda ferðarinnar en verið neitað. 

Í umsögn Íslandsbanka segir að óvíst sé að alþjóðlegar kortasamsteypur „víki frá skilmálum sínum þó svo að lögum einstakra ríkja verði breytt þannig að þau kunni að brjóta gegn skilmálunum“. Arion banki lýsir sig mótfallinn frumvarpinu og tekur fram að ef þeim sem selur pakkaferð sé ekki skylt að endurgreiða ferð vegna frumvarpsins geti það leitt til þess að korthafi tapi endurkröfurétti sínum á kortafélagið.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa lýst sig fylgjandi efni frumvarpsins en BSRB, Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin eru andvíg því. Neytendastofa lagði áherslu á að frumvarpið æti ekki að skerða fjárhagsleg réttindi neytenda heldur aðeins frestað þeim og lagði til orðalagsbreytingu í því ljósi. Ferðamálastofa sagði að lagabreytingin myndi gefa ferðaskrifstofum svigrúm til að lifa af efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins og sagði að miklar líkur væru á að ferðaskrifstofur yrðu gjaldþrota ef lagabreytingin gengur ekki eftir.

Leiðrétt 21:41. Í upphaflegri gerð fréttarinnar var frumvarpið sagt frá öðrum ráðherra komið. Það hefur verið leiðrétt.