Taka þúsundir nýrra grafa í Síle vegna COVID-19

15.05.2020 - 03:42
epa08420398 A health worker prepares to perform a test for COVID-19 at a drive-thru service in Bogota, Colombia, 13 may 2020.  EPA-EFE/Mauricio Duenas Castaneda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Vegna kórónuveirufaraldursins eru nú þúsundir nýrra grafa teknar við Santíagó, höfuðborg Síle. Útbreiðsla faraldursins náði nýjum hæðum þar í landi í vikunni og setti ríkisstjórnin á útgöngubann í höfuðborginni frá deginum í dag.

Á bilinu 350 og fimm hundruð ný smit voru að greinast á dag í Síle þar til um síðustu helgi, þegar fjöldi smita tók stökk. Á miðvikudag greindust þar á sólarhring 2.600 ný smit og annað eins í gær. 

AFP fréttastofan hefur eftir Rashid Saud, kirkjugarðsstjóra, að þar hafi fólk áttað sig á því að út frá reynslu annarra landa gæti verið þörf á fleiri gröfum í Síle. 

Síleskir grafarar búa sig því nú undir að taka tvö þúsund nýjar grafir í undirbúningi fyrir möguleg andlát af völdum COVID-19. 368 Sílemenn hafa þegar látið lífið af völdum sjúkdómsins og 37 þúsund eru smitaðir. 

Saud sagði að með þessu sé reynt að forðast það að grípa til fjöldagrafa eða að lík liggi á götum úti, eins og hefur gerst í sumum löndum. Grafirnar séu því tilbúnar, en vonandi yrði ekki þörf á þeim.