Svartur apríl á vinnumarkaði

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nærri 50 þúsund manns voru án atvinnu eða í skertu starfshlutfalli í apríl. Þetta er langmesti fjöldi á atvinnuleysisskrá síðan mælingar hófust. Forstjóri Vinnumálstofnunar vonar að það dragi hratt úr atvinnuleysi þegar líða tekur á árið.

Vinnumálastofnun birti í dag atvinnuleysistölur fyrir apríl en vitað var að aukningin yrði mikil því þá komu þeir sem skráðu sig í skert starfshlutfall inn í tölurnar. Vel yfir 33 þúsund manns bættust við á skrá Vinnumálastofnunar í mánuðinum. Fór skráð atvinnuleysi úr 9,2 prósentum í mars sem þó var mikil aukning frá fyrri mánuði, upp í 17,8 prósent. Meirihluti þeirra var á hlutabótaleiðinni.

Toppnum náð

Vinnumálastofnun spáir því að toppnum sé náð og að hlutfallið í maí verði farið niður í 14,8 prósent. „Sem er náttúrlega mjög hátt en það er samt heilmikil minnkun og við vonumst jafnvel til að þetta verði enn minna. [KLIPP] Bara strax og léttist á þessu samkomubanni og heilmikið af þessum starfsgreinum komust í vinnu aftur þá var alveg viðbúið að þetta myndi snarminnka sem betur fer,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Suðurnesin langverst úti

Langmesta atvinnuleysið er á Suðurnesjum þar sem einn af hverjum fjórum er án atvinnu eða á hlutabótum. Hlutfallið er einnig tiltölulega hátt á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, þeim stöðum þar sem ferðaþjónustan er umsvifamikil. Minnst er atvinnuleysi á Norðurlandi vestra, 8,8 prósent.

5.800 manns misstu vinnuna í hópuppsögnum hjá 85 fyrirtækjum í apríl og er þetta mesti fjöldi hópuppsagna sem borist hefur á svo skömmum tíma frá því lög um þær tóku gildi árið 1993. Flestir þeirra voru komnir í skert hlutfall áður en til uppsagna kom og eru því inni í þessum tölum, þar með taldir nærri tvö þúsund starfsmenn Icelandair. 

Framhaldið veltur á ferðaþjónustunni

Hvort og hvenær atvinnuleysi tekur að minnka að ráði er óvíst. Landsbankinn birti í gærkvöldi þjóðhagsspá sem gerir ráð fyrir 9 prósenta atvinnuleysi í ár, sjö prósentum á því næsta og 6 prósentum árið 2022. Spá Íslandsbanka er á svipuðum nótum nema að hann spáir því að atvinnuleysi gangi hraðar niður og verði komið niður í tæp fjögur prósent árið 2022. Sem fyrr veltur framhaldið á því hvenær erlendir ferðamenn fara að skila sér til landsins. „Ég er bara bjartsýn að eðlisfari. Ég held að ef að það kemst einhver hreyfing á ferðafólk þá er ferðaþjónustan mjög fljót að spyrna sér frá botninum,“ segir Unnur

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi