Sköpunarmiðstöðin fékk þak og getur tekið hæð í notkun

15.05.2020 - 09:32
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Starfsemi Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði er í fyrsta sinn komin undir regnhelt þak og hægt er að taka í notkun heila hæð sem áður var ónothæf vegna bleytu. Þrettán plötur hafa verið teknar upp í nýju hljóðveri í húsinu.

Í gamla frystihúsinu á Stöðvarfirði hefur hópur fólks byggt upp sköpunarmiðstöð þar sem listamönnum er boðin vinnustofudvöl. Þakið var ónýtt og lak og það hefti starfsemina mjög. Ekkert var hægt að nýta á efri hæð hússins sem lá undir skemmdum. Rúmar 80 milljónir fengust í lagfæringar frá ríkinu og Fjarðabyggð.

„Með því að fá þakið lagað þá er komin forsenda fyrir því að geta tekið efri hæðina í notkun og það sem við stefnum að er að stækka vinnustofudvöl fyrir listamenn og að geta gert hérna gríðarstórt og glæsilegt sameiginlegt vinnurými með æðislegt útsýni yfir sjóinn. En það er kannski hálfur sigur unninn af því að við eigum enn þá eftir að klára að klæða húsið að utan. Þannig að það verður enn betra þegar við verðum búin að gera það. Þá er þetta hús ósigrandi,“ segir Una Sigurðardóttir, ein þeirra sem veita Sköpunarmiðstöðinni forstöðu.

Í gamla íssílóinu er búið að setja upp hljóðver þar sem bæði er hægt að taka upp stafrænt en líka tölvulausa tónlist með analog-tækni. Þar ræður ríkjum Vincent Wood rafeindaverkfræðingur sem hannar og smíðar lampamagnara en þeir gefa mjúkan, gamaldags hljóm. „Bráðum ætla ég að setja hljóðnemamagnara á markað og líka gítarpedala og það tryggir mér næg verkefni þegar ekki eru upptökur í gangi í hljóðverinu,“ segir Vincent.

Ágætt að gera í hljóðverinu

Í hljóðverinu Studio Silo  hafa ekki bara íslenskir heldur líka færeyskir, bandarískir og þýskir tónlistarmenn tekið upp. Vincent vonar að tónlistarmenn komi undan COVID fullir af nýsmíði. „Tónlistarmenn hafa ekki getað haldið tónleika þannig að ég var að vona að í staðinn myndu þeir einbeita sér að því að semja nýja tónlist. Svo þegar þessu lyki þyrfti að taka upp helling af plötum. Þannig að ég er vongóður.“