Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rafvæðing hafnarinnar stórt skref í umhverfismálum

Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um háspennubúnað fyrir flutningaskip í Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík. Skúli Helgason, borgarfulltrúi, segir að um ákveðin tímamót sé að ræða þar sem verkefnið sé nú fullfjármagnað með með þessari undirritun. Umhverfis- og auðlindaráðherra segir þetta stórt skref vegna loftslagsbreytinga.

Með undirritun yfirlýsingarinnar er búið að tryggja fjármagn fyrir verkefninu en það er íslenska ríkið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Veitur, Eimskip og Samskip sem bindast samtökum um þetta verkefni. Byrjað verður á því að koma upp landtengingu fyrir stóru flutningaskipin þannig að þau séu tengd við rafmagn þegar að þau eru í höfninni. Skúli Helgason, borgarfulltrúi, segir þetta vera býsna stórt skref sem sé búið að vera draumur margra lengi. Hann segir þetta vera verkefni upp á nokkur hundruð milljóna króna og borgin komi inn með um tvo þriðju hluta verkefnisins í gegnum dótturfyrirtæki sín. Ríkið kemur inn með rúmlega 100 milljónir auk þess sem skipafélögin, Eimskip og Samskip, fjármagna það sem að þeim snýr en gera þarf breytingar á skipum þeirra til að þau geti tengst rafmagni í landi. Næsta skref sé samskonar verkefni fyrir farþegaskip og stór skemmtiferðaskip. „Varðandi farþegaskipin þá er það mun dýrara verkefni og mun hlaupa á einhverjum milljörðum. Það mun þurfa að liggja mjög vel yfir því hvernig það yrði fjármagnað,” segir Skúli.

Vonast er til að þessi áfangi verði kominn til framkvæmda á næsta ári. „Það er planið sem við vinnum eftir og allir mjög ákafir í því efni, bæði ráðherrann og við hjá borginni að þetta sé hluti af þeim flýtiframkvæmdum sem við förum í til að reisa okkur við eftir þetta áfall sem hefur tengst COVID og fleiru,” segir Skúli. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að um stórt skref sé að ræða í aðgerðum ríkis og sveitafélaga vegna loftslagsbreytinga og í loftgæðamálum. „Við erum í fyrsta lagi ríkið núna að koma inn með fjármagn til hafnarframkvæmda sem snúa að rafvæðingu hafna. Faxaflóahafnir eru ein af 10 höfnum sem við erum að veita styrki í dag. Ég vil meina að þetta sé stórt skref í aðgerðum ríkis og sveitafélaga vegna loftslagsbreytinga. Þetta er líka stórt skref þegar kemur að loftgæðamálum. Hvernig gæði loftsins eru í borginni.”

Ráðherra segir jafnframt að við getum lært ýmislegt af COVID-19 faraldrinum, nefnir hann sem dæmi að við höfum hlustað á vísindafólkið okkar og staðið saman í að fylgja leiðbeiningum þeirra. Þá hafi komið í ljós að margir geta unnið heima og eigi fólk þess kost sé jafnvel ekki nauðsynlegt að mæta til vinnu alla daga en þannig sé hægt að draga úr umferð og mengun. Þá þurfi ríkið að huga að því hvernig fjárfestingum þess sé hagað. „Ég held síðan að það sem við þurfum að horfa sérstaklega til að þær fjárfestingar sem við erum að ráðast í, og ríkið hefur núna sett til dæmis fjármagn í fjölmörg umhverfismál, meðal annars það sem við erum að fagna hér í dag að það sé gert með þeim hætti að þetta séu grænar fjárfestingar ef við getum orðað það þannig. Það skiptir rosalegu máli að þegar hið opinbera kemur með aukin kraft inn í efnahagslífið með slíkum fjárfestingum að við séum að horfa til framtíðar. Við séum að fara hraðar orkuskiptin, við séum að stíga stærri skref þegar kemur að náttúrunni, bæði ferðamannastöðununum okkar, að byggja innviði upp á þeim en líka að endurheimta gróður og jarðveg sem er líka stórt loftslagsmál og stórt mál þegar kemur að því að endurheimta gæði lífríkisins,” segir Guðmundur Ingi. 

Nánar var rætt við Skúla Helgason og Guðmund Inga Guðbrandsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.