Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óréttlætanlegt að níðast á einum til að hjálpa öðrum

15.05.2020 - 12:46
Mynd: RÚV / RÚV
Formaður Samtaka áhugamanna um spilafíkn, SÁS, segist vilja sjá þá aðila sem reka spilakassa rétta spilafíklum hjálparhönd, í stað þess að líta á þá sem tekjulind. Sjö af hverjum tíu eru andsnúnir því að hjálparsamtök og félög sem vinna í almannaþágu séu fjármögnuð með rekstri spilakassa, samkvæmt nýrri könnun Gallups.

Samkvæmt könnun Gallups fyrir Samtök áhugamanna um spilafíkn, SÁS, vilja ríflega 85% svarenda að spilakassar og spilasalir verði ekki opnaðir aftur, en þeim var lokað þegar hert samkomubann tók gildi í mars. Spilakassar Íslandsspila voru opnaðir aftur í söluturnum fjórða maí, en spilasalir eru enn lokaðir. Alma Hafsteins, formaður SÁS, segir það hafa verið vonbrigði þegar spilakassarnir voru opnaðir á ný. 

Árleg heildarvelta spilakassa á Íslandi eru um tólf milljarðar króna. Samkvæmt könnuninni eru einungis um 0,3% sem stunda spilakassa að staðaldri. „Hugmyndin á bak við þessi leyfi, á bak við þessa spilakassa er að það komi litlar upphæðir frá mörgum. Staðreyndin er sú þær eru að koma frá fáum og þá erum við að taka aleigu einstaklinganna,“ segir Alma. 

Íslandsspil eru í eigu þriggja félagasamtaka sem vinna að almannaheill; Rauða krossins á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ. Happdrætti Háskóla Íslands rekur einnig spilakassa. Sjö af hverjum tíu sem tóku afstöðu í könnuninni eru annað hvort frekar neikvæðir eða mjög neikvæðir gagnvart því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum. „Spilafíkn er ofsalega alvarlegur sjúkdómur. Fólk er að missa aleiguna, fjölskyldur eru að brotna, og við höfum jafnvel séð tilfelli þar sem fólk er að taka eigið líf. Og við getum ekki undir nokkrum kringumstæðum réttlætt það að við séum að níðast á einum hóp til að afla peninga til að hjálpa einhverjum öðrum,“ segir Alma. Hún segist vilja sjá þessa aðila rétta spilafíklum hjálparhönd, í stað þess að líta á þá sem tekjulind.