Fimm frekar fersk fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Gorillaz - How Far?

Fimm frekar fersk fyrir helgina

15.05.2020 - 00:01

Höfundar

Þá er loksins komin helgi aftur og kominn tími að syngja og tralla sig í gang. Að þessu sinni er boðið upp á einhverja vinsælustu plötusnúða heims, lag með langa sögu, síðasta samstarf trommarans Tony's, martröð tónlistargagnrýnandans og að lokum smá þunglyndisvísu.

CamelPhat, ARTBAT – For a Feeling

Liverpool-dúettinn CamelPhat er búinn að vera sjóðheitur síðan lagið Cola kom út en þeir hafa starfað saman í hátt á annan áratug. Kapparnir voru á topp 10 yfir vinsælustu plötusnúða heims í fyrra og fengu tilnefningu til Grammy verðlauna auk þess að koma reglulega fram í þáttum Annie Mac, Zane Lowe og Pete Tong. Það er því ekki skrítið að nýju plötunnar þeirra sé beðið með spennu en stamstarf þeirra við ARTBAT í For a Feeling er fjórða lagið sem kemur út af henni.


Clams Casino, Imogen Heap – I'm God

Í heimi raftónlistar getur oft verið heljarinnar vesen að fá leyfi frá öðrum listamönnum til að gera snilld. Ameríski upptökustjórinn Clams Casino hefur fengið að reyna það. Hann hefur gengið á eftir hljóðbúti frá Imogen Heap í langan tíma og fékk loksins leyfi frá þeim til að gefa út lagið I'm God löglega, en annars er þetta frekar löng saga.


Gorillaz Ft. Tony Allen & Skepta – How Far?

Í byrjun þessa mánaðar kvaddi trommuleikarinn Tony Allen þennan heim og strax í kjölfarið sendi Gorillaz frá sér lagið How Far? til að heiðra minningu hans. Damon Albarn hefur unnið töluvert með Tony en sumir vilja meina að hann sé einn besti trommuleikari sögunnar, hér eru nokkur tóndæmi.


Ghostpoet – Nowhere To Hide Now

Tónlistarblaðamenn eru hugsi yfir tónlistarmanninum Ghostpoet því þeir hafa ekki hugmynd um hvaða tegund af tónlist hann spilar. Við ætlum ekkert að velta okkur upp úr því en kjamsa smá á frábæru lagi hans, Nowhere To Hide Now, af plötunni I Grow Tired But I Dare Not Fall Asleep sem kom út á frídegi verkalýðsins.


Arlo Parks – Black Dog

Tónlistarkonan Arlo Parks og lagið hennar Eugene hafa heyrst töluvert á Rás 2 á árinu og nú er þessi efnilega tónlistarkona búin að senda frá sér nýtt lag sem er ekki síðra. Lagið heitir Black Dog og hún sendir það frá sér til að styðja við aðdáendur sína sem glíma við geðraskanir.


Fimman á Spotify

Tengdar fréttir

Tónlist

Upphafsmaður afróbítsins allur