Ferðalög innan Evrópu gætu orðið að veruleika

15.05.2020 - 19:45
Mynd: Geir Ólafsson / RÚV grafík
Íbúar Eystrasaltsríkjanna þriggja geta nú ferðast á milli þeirra án þess að fara í sóttkví. Fleiri ríki hafa boðað tilslakanir og ferðalög innan Evrópu gætu orðið að veruleika í sumar ef ástandið versnar ekki á ný.

Fólk getur nú ferðast milli Eistlands, Lettlands og Litáens án þess að fara í sóttkví, að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Sem dæmi má nefna að fólk má ekki hafa ferðast utan þeirra undanfarinn hálfan mánuð. Ríkin þrjú eiga það sameiginlegt að tiltölulega fáir hafa greinst með veiruna, miðað við önnur Evrópuríki. Þetta er fyrsta samstarf ríkja um opnun landamæra en hugsanlegt er að Finnland og Pólland bætist í hópinn. Fjöldi Evrópuríkja hefur dregið úr takmörkunum síðustu vikur. Í mörgum þeirra er ferðaþjónustan afar mikilvæg og hafa sum þeirra þegar boðað opnun landamæra. 

epa08422991 An Estonian border police officer removes a warning signs as he end his duties at the Ikla border crossing point, Estonia, 15 May 2020. Estonia had reintroduced border controls from 17 March and foreign travelers were not allowed to enter Estonia in order to contain the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease. Lithuania, Estonia and Latvia opened their borders for citizens who can now again move freely between the three countries as of 15 May morning, that have so far avoided the worst of the COVID-19 pandemic.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eystrasaltsríkin opnuðu landamærin fyrir hvoru öðru.

Auk Eystrasaltsríkjanna hafa Þjóðverjar boðað opnun landamæra að Austurríki, Sviss og Frakklandi frá og með morgundeginum. Þá stendur til að opna fyrir öllum ferðamönnum frá ESB-svæðinu 15. júní. Sömu sögu er að segja frá Austurríki. Nú þegar hafa tvær landamærstöðvar við Ungverjaland verið opnaðar þar að margir þurfa að komast á milli vegna vinnu. 

Frakkar og Bretar hafa samið um að leyfa fólki að ferðast milli landanna án þess að fara í sóttkví - þá geta ferðalangar frá Schengen-svæðinu farið til Frakklands án þess að fara í sóttkví eftir 15. júní. Grikkir hafa farið frekar vel út úr faraldrinum og yfirvöld þar vonast til að geta opnað landið fyrir ferðamönnum 1. júlí. Spánverjar hafa opnað landamæri sín en þar er skylda að fara rakleitt í 14 daga sóttkví. Nágrannar þeirra í Portúgal hafa boðað opnun landamæra um miðjan júní. Með því skilyrði þó að þau sem sækja landið heim fari í sýnatöku en það er enn óljóst hvernig hún verður framkvæmd.