Félag Björgólfs Thors var eini lánveitandi DV

15.05.2020 - 07:17
Mynd með færslu
 Mynd: Björgólfur Thor - RÚV
Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, var eini lánveitandi Frjálsrar fjölmiðlunar sem og helsti bakhjarl fjölmiðilsins. Þetta kemur fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins um samruna félagsins og Torgs. Frjáls fjölmiðlun gaf út DV en Torg er útgefandi Fréttablaðsins.

Úrskurður Samkeppniseftirlitsins birtist á vef stofnunarinnar í gær en samruni fjölmiðlafyrirtækjanna tveggja fékk grænt ljós í lok mars.  Vegna aðstæðna og áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar tókst ekki að birta ákvörðun eftirlitsins fyrr en nú.

Í úrskurðinum kemur fram að Frjáls fjölmiðlun hafi átt við verulega rekstrarerfiðleika að stríða og rekstur þess ekki verið sjálfbær.  Félagið var skráð fyrir DV, dv.is, pressan.is, eyjan.is, bleikt.is og 433.is.

Samkeppniseftirlitið fékk afrit af samningum hjá bæði Torgi og Frjálsri fjölmiðlun og þar kom fram að félagið Novator var eini lánveitandi Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins. Skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er einkahlutafélagið Dalsdalur sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns.  

Í samtali við Stundina fyrir tveimur árum neitaði Sigurður að upplýsa hverjir hefðu veitt félagi hans 475 milljóna króna lán til að fjármagna rekstur DV og annarra fjölmiðla.

Fram kom í fréttum að Sigurður G. hefði keypt DV og fleiri fjölmiðla í september fyrir þremur árum út úr Pressu-samstæðunni svokölluðu.  Meirihlutaeigandi Pressunnar, fjárfestingafélagið Dalurinn, sagði í tilkynningu að það hefði ekki frétt af þeim kaupum fyrr en þau voru frágengin. Að baki því félagi stendur meðal annarra Róbert Wessman en hann og Björgólfur Thor hafa átt í miklum erjum undanfarin ár.

Fjögur fyrirtæki sendu inn umsagnir um samruna Frjálsrar fjölmiðlunar og Torgs. Þrjú þeirra töldu að samruni þeirra hefði ekki teljandi áhrif á samkeppnina en eitt þeirra vildi setja það skilyrði að upplýst yrði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar. „Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi þess sé valdi öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og bjagi markaðsstöðu óhjákvæmilega,“ eins og það er orðað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. 

Forsvarsmenn Frjálsrar fjölmiðlunar og Torgs sögðu í umsögn sinni að fljótt á litið virtist sem einkareknir fjölmiðlar hér á landi hefðu á árinu 2018 tapað í kringum einum milljarði króna og uppsafnað tap þeirra á liðnum árum næmi nokkrum milljörðum. 

Ástandið væri glórulaust því á sama tíma væri hlaðið undir rekstur RÚV og það væri stjórnlaust á auglýsingamarkaði. Stjórnvöld yrðu að fara gera sér grein fyrir því að það væri ekki sjálfgefið að innlendir fjölmiðlar störfuðu áfram. „Einn daginn gæti staðan verið sú, ef fram fer sem horfir, að í landinu verði ein ríkisrekin fréttastofa.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi