Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Býst við mjög góðu laxveiðisumri

15.05.2020 - 17:44
Mynd: Aðsend / Aðsend
Óðum styttist í að laxveiðitímabilið hefjist. Jón Þór Ólason, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, býst við mjög góðri laxveiði og er bjartsýnn á sumarið þrátt fyrir ýmsa óvissuþætti. Laxveiðitímabilið hefst í Elliðaám í Reykjavík 21. júní.

Jón Þór segir að síðasta sumar hafi verið eitt erfiðasta laxveiðiárið frá upphafi með vatnsskorti og lélegum laxagöngum. „Í ár eru allar forsendur fyrir því að það verði mjög gott laxveiðisumar, það var mjög góð hrygning í ánum 2018 og það er stofninn sem gengur inn í árnar núna sem eins árs lax.” Hann bætir við að það séu ýmsar fleiri ástæður fyrir því að laxveiðifólk sé fullt bjartsýni fyrir komandi sumar. Fjöll og gil séu til dæmis full af snjó svo vatnsleysi verði ekki vandamál. „Þannig að ég á von á mjög góðu laxveiðisumri. Ég var meira skeptískur í fyrra af því að seyðárgangurinn þá sem gekk til sjávar var minni. En síðan komu náttúrulega aðstæður sem eiga engan sér líkan í veiðissögunni þar sem að árnar voru vatnslausar margar hverjar frá opnun,” segir Jón Þór

COVID-19 hefur vissulega sett strik í reikninginn hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur. Óvissa er um marga þætti sem tengjast starfinu. Jón Þór nefnir að dýrustu tímarnir í laxveiðiánum séu að stórum hluta keyptir upp af útlendingum og stórum fyrirtækjum. Nú sé unnið að því með landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum að bjarga því sem bjargað verður. „Við trúum og treystum á að Íslendingar muni ferðast líka meira og við erum með valkosti í fjöldamörgum ám sem eru, getum við sagt á öllum skölum þegar kemur að verði,” segir Jón Þór. Til séu áætlanir til að bregðast við þessu breytta landslagi. Hann segir að heilsa fólks skipti auðvitað mestu máli. Stór hluti þeirra erlendu veiðimanna sem koma til landsins eru í eldri kantinum og því ekki ráðlagt að ferðast mikið á þessum tímum og því er eitthvað um afpantanir hjá þeim hópi. „Það eru aðrir sem eru að koma til landsins og finnst þeir vera öruggari að vera í fallegu landi og standa við árnar þar sem þú ert ekki nálægt neinum og vera að egna fyrir fisk,” segir Jón Þór. Þá sé verið að teikna upp hvernig megi skipta stærstu veiðihúsunum upp í aðskilin rými til að hindra samskipti og virða allar reglur. 

Rætt var við Jón Þór Ólason í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson