Ultraflex, When 'Airy Met Fairy og Volcanova með nýtt

Mynd: When Airy Met Fairy / whenairymetfairy.com

Ultraflex, When 'Airy Met Fairy og Volcanova með nýtt

14.05.2020 - 17:30

Höfundar

Það eru ferskir vindar í Undiröldunni að þessu sinni og hellingur af tónlistarfólki með nýtt efni sem margir hafa líklega ekki heyrt. Mörg þeirra hafa þó unnið að tónlist í einhvern tíma og bíða þolimóð eftir að frægðarsólin brjótist í gegn og brenni þau á nefinu.

Ultraflex - Olympic Sweat

Ultraflex er þverfaglegt listrænt samstarfi hinnar norsku Kari Jahnsen eða Farao og Katrínar Andrésdóttur úr Reykjavíkurdætrum og Special-K. Þær stöllur hafa báðar verið útnefndar til fjölmargra tónlistarverðlauna í heimalöndum sínum og erlendis en frumraun samstarfs þeirra, Visions of Ultraflex, kemur út 2020. Platan er konseptplata til heiðurs líkamsrækt og er, samkvæmt fréttatilkynningu, tónlist sem hreyfir við þér og kemur þér á hreyfingu.


When 'Airy Met Fairy - Going To a Town

Samstarf þeirra Þórunnar Egilsdóttur og Mikes Koster hefur vakið athygli víða í erlendu popppressunni en þau hafa unnið saman að verkefninu When 'Airy Met Fairy síðan árið 2015. Önnur plata sveitarinnar í fullri lengd kom út í byrjun maí og hefur fengið nafnið Esprit De Corps og ábreiða þeirra af Rufus Wainwright-laginu Going To a Town er að finna á henni.


Joseph Cosmo - Love

Joseph Cosmo Muscat hefur gefið út plötuna Self Love undir nafninu Joseph Cosmo á streymisveitum, en hún kom út þann 8. maí. Síðast þegar hann kíkti í heimsókn í Undirölduna var það undir nafninu SEINT en hann er á sömu línu undir sínu eigin nafni.


Skuggasveinn - Gone

Gone er önnur smáskífa tónlistarmannsins Guðlaugar Bragasonar sem gengur einnig undir nafninu Skuggasveinn og var áður þekktur sem Aui. Í kjölfarið vonast Skuggasveinn eftir að halda tónleika sem hann gerir þegar aðstæður leyfa.


Brynja Bjarnardóttir - Light Headed

Tónlistarkonan Brynja Bjarnardóttir býr í Hollandi þar sem hún rekur stúdíó. Lagið Light Headed samdi Brynja og vann í samstarfi við hollenska tónlistarmanninn LUVR, en lagið fjallar um sleppa áhyggjunum í augnablik og njóta líðandi stundar.


Special-K - Quest To Impress

Katrín Helga Andrésdóttir úr Reykjavíkurdætrum sem við heyrðum í fyrr í þættinum undir nafninu Ultraflex hefur sent frá sér lagið Quest to Impress undir nafninu Special-K en það er að finna á plötu hennar LUnatic thirST.


Stefanía Svavarsdóttir - Flying

Stefanía Svavarsdóttir hefur sent frá sér lagið Flying en í því spilar Rubin Pollock á gítar, Ingi Björn Ingason á bassa, Zöe Ruth Erwin á hljóðgervil og Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur.


Volcanova - Sushi Sam

Sushi Sam er fyrsti singúll af væntanlegri breiðskífu hljómsveitarinnar Volcanova. Platan kemur út 21. maí og í lok ágúst á vegum sænsku útgáfunnar The Sign Records.