Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur ákveðin tækifæri liggja í frestun Hvalárvirkjunar

14.05.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Umhverfisráðherra vill nota tækifærið, nú þegar undirbúningi Hvalárvirkjunar hefur verið frestað, og kanna möguleika á annars konar landnotkun en til rafmagnsframleiðslu. Hann minnir á það mat Náttúrufræðistofnunar að friða skuli virkjunarsvæðið.

Vesturverk, sem undirbýr Hvalárvirkjun í Árneshreppi, lokaði skrifstofu sinni á Ísafirði í byrjun mánaðarins og sagði upp starfsmönnum þar. Ástæðan er sögð erfiðar aðstæður á raforkumörkuðum. Framkvæmdum við Hvalárvirkjun var um leið slegið á frest um óákveðinn tíma.

Beri að líta til fleiri tækifæra en virkjunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra telur að í þessu felist tækifæri. „Ég held að okkur beri að líta til þeirra tækifæra sem að eru á þessu svæði á fleiri sviðum heldur en bara sem snýr að virkjunum. Og ég hef löngum talað fyrir því.“ 

Landamerkjadeila og ólíkar skoðanir 

Áformin um Hvalárvirkjun eru síður en svo óumdeild. Oddviti Árneshrepps hefur lýst vonbrigðum með frestun framkvæmda um leið og Landvernd hefur fagnað þessu. Þá vilk meirihluti eigenda jarðarinnar Drangavíkur, sem er andvígur virkjuninni, fá viðurkennt að hún sé innan landamerkja þeirra.

Tækifæri til að skoða betur mögulega vernd svæðisins

En Guðmundur Ingi segir að eitt af því sem nú sé tækifæri til að skoða betur sé hvernig halda megi utan um vernd þessa svæðis. Þarna séu gríðarlega stór og verðmæt víðerni og gerðar hafi verið rannsóknir á því hvaða efnahagslegu áhrif það hefði fyrir byggðina þarna að fara aðrar leiðir en að virkja.
„Munt þú beita þér einhvernveginn öðruvísi í þessu máli þarna fyrir vestan núna, en á meðan áformin voru öll á fullu?“
„Það hefur náttúrulega legið fyrir það mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að það eigi að friðlýsa þetta svæði. Og það er eitthvað sem er í vinnslu hjá Umhverfisstofnun og ráðuneytinu að skoða. Og sú skoðun er ennþá í gangi, þannig að það er kannski erfitt að segja til um það akkúrat núna. En ég bara ítreka að það felist ýmis tækifæri fyrir þetta svæði sem koma að öðru heldur en að nýta það endilega til rafmagnsframleiðslu. Það er eitthvað sem okkur ber sem stjórnmálafólki að líta til,“ segir Guðmundur Ingi.