„Skömmin lifir svo góðu lífi í myrkrinu“

14.05.2020 - 14:09
Mynd: Alda Villiljós / Samtökin 78
Sársauki við kynlíf, risvandamál eða seinkað sáðlát er meðal þeirra vandamála sem Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir sálfræðingur hjálpar skjólstæðingum sínum að vinna bug á. Hún býður nú pörum og einstaklingum upp á kynlífsráðgjöf.

Aldís hefur unnið með hinsegin fólki í ráðgjafateymi Samtakanna '78 síðustu ár og heldur nú úti heimasíðunni Kynlífsráðgjöf sem hún opnaði nýlega. Á síðunni getur fólk bókað tíma í ráðgjöf hjá Aldísi sem segir það lengi hafa verið draum sinn að starfa sem kynlífsráðgjafi og aðstoða fólk með vanda sinn í þeim efnum. Frá því hún var unglingur hafi enda kynlíf, fræðsla og ráðgjöf heillað hana en framhaldsnám í faginu er ekki í boði á Íslandi. Hún fór því til Bandaríkjanna í nám og sneri aftur heim nýverið og er byrjuð að miðla þekkingu sinni. Aldís var gestur Mannlega þáttarins á Rás 1 þar sem hún ræddi um námið, ráðgjöfina, kynlífið og skömmina sem hún segir mikilvægt öllum að reyna að losa sig undan.

Talaði svo fallega um kynlíf og af mikilli virðingu

Aldís ólst upp í Kanada og minnist hún þess að hafa á yngri árum horft á sjónvarpsþættina Sunday Night Sex Show sem voru á dagskrá þar í landi á sunnudagskvöldum. Þáttastjórnandinn Sue Johanson fjallaði um kynlíf og svaraði spurningum áhorfenda. Aldís heillaðist af þáttunum og umræðunni og sat límd við skjáinn öll kvöld. „Hún [Johanson] gerði það svo fallega og af svo mikilli virðingu. Þarna er engin skömm og fólk má hringja inn með spurningar og hún veitir kynlífsráðgjöf,“ segir Aldís. „Það er eitthvað við að horfa á hana sem kveikti í mér áhuga sem hefur fylgt mér.“

Það á að tala um kynlíf snemma og gera það oft

Aldís fann fljótt fyrir gífurlegum áhuga á þjónustunni og umræðunni sem hún segir blessunarlega hafa opnast mikið að undanförnu eftir margra ára tabústöðu. Hún bendir á að þar hafi starf kynfræðinganna Siggu Daggar og Indíönu Rósar og aktívistans Sólborgar Guðbrandsdóttur haft mikið að segja. Þær hafa undanfarið farið í skóla og rætt opinskátt um kynlíf við ungt fólk. Aldís segir mikla þörf á umræðunni enda fylgi henni oft skömm sem mikilvægt sé að losa sig við. „Við þurfum að geta talað um kynlíf. Það þarf að tala um það snemma í sambandi og tala um það oft. Hvað virkar og hvað ekki,“ segir hún.

Snýst um samskipti en líka unað

Aldís segir mikilvægt að tala snemma við krakka um kynlíf svo þau fari ekki að leita svara í hyldýpi internetsins. „Þar eru ekki endilega bestu svörin,“ segir hún. „Það þarf að tala við þau um kynlíf, um samskipti og að setja mörk.“ Það sé líka mikilvægt að halda því til haga þegar talað er við ungmenni að kynlíf snýst ekki eingöngu um samskipti heldur líka um unað. 

Og seinna á lífsleiðinni segir hún mikilvægt fyrir pör í vanda að leita sér aðstoðar sem allra fyrst í sambandinu, þó það kunni að vera skrýtið til að byrja með að tala um svo persónulegan hluta sambandsins við ókunnuga manneskju. „En það er fyrsta skrefið og svo venst það. Við erum að vinna okkur úr þessari skömm. Skömmin lifir svo góðu lífi í myrkrinu, þegar þetta er leyndarmál og það má ekki tala um þetta.“

Líka fyrir einstaklinga

En þó að vandinn hafi gerjast í sambandi um langa hríð án þess að vera ræddur segir hún alls ekki alltaf of seint að gera eitthvað í því. Það sé alltaf jákvætt skref að vinna í málunum. Hún minnir einnig á að ráðgjöfin sé ekki bara fyrir pör heldur líka fyrir einstaklinga sem vilja kynlífsráðgjöf.

Margir leita til Aldísar vegna kvíða sem á rætur að rekja til kynlífs á einhvern hátt. „Hann er stundum sprottinn frá því að fólk er óöruggt með líkama sinn eða hvernig þeim gengur í rúminu, verða óörugg gagnvart maka,“ segir hún. „Þetta snýst um samskipti en við erum líka oft að vinna með afmarkaðan vanda. Parið upplifir kannski ólíka löngun og áhuga eða hefur áhuga á ólíku kynlífi. Svo er sársauki við kynlíf, risvandamál eða seinkað sáðlát.“

Fólk þarf að þora að leika sér

Streita í lífi fólks geti líka haft áhrif á kynlífið. Aldís nefnir sem dæmi barneignir, umönnun foreldra eða atvinnumissi. „Þá fer það oft að hafa áhrif á sambandið og kynlífið. Þetta fer inn á mörg svið.“ Að lokum bendir hún á að það skipti máli að leyfa sér að vera berskjaldaður í sambandi. „Það þarf að þora að leika sér. Aldrei hætta að daðra, hafa gaman og hlæja. Þetta þarf ekki að vera svona alvarlegt,“ segir hún.

Rætt var við Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur í Mannlega þættinum.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður
gudrung's picture
Guðrún Gunnarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi