
Reykjaneshöfn vill Thorsil úr Helguvík
Hjörtur Magnús Guðbjartsson, formaður Reykjaneshafnar, segir að ekki gangi lengur að taka frá stóran hluta af verðmætasta landsvæði Reykjaneshafnar í Helguvík undir starfsemi sem fer ekki af stað. Það gangi ekki á sama tíma og hafna verði umleitunum annarra sem vilja kanna þar möguleika á uppbyggingu.
„Þetta verkefni var að taka stóran hluta af okkar verðmætasta landsvæði í Helguvík. Þetta er ekki stór vík. Á sama tíma erum við ekki til viðræðu um önnur verkefni. Reglulega koma fyrirspurnir um alls konar verkefni á svæðinu. Hingað til höfum við þurft að segja: Nei þetta svæði er tileinkað Thorsil,“ segir Hjörtur Magnús. Hann segir að Reykjaneshöfn hafi sameinað lóðir og leyst til sín lóðir og lagt í nokkurn kostnað vegna þess, Thorsil hafi hins vegar ekkert greitt á þessum sex árum.
Hjörtur Magnús hefur verið í stjórn Reykjaneshafnar í ellefu ár. „Ég er búinn að samþykkja ansi marga fresti til þessa fyrirtækis. Núna var bara komið gott. Einhvern tímann verður meðvirkninni að ljúka.“
Á sínum tíma var samið um tólf mánaða uppsagnarfrest ef til vanefnda kæmi. Thorsil getur því greitt upp það sem út af stendur og unnið út frá fyrri áformum. Að öðrum kosti getur Reykjaneshöfn samið við aðra um uppbyggingu. Hjörtur Magnús segir þó að með ákvörðun sinni í dag sýni stjórn hafnarinnar sína framtíðarsýn. „Hún er ekki með Thorsil.“
Víkurfréttir sögðu fyrst frá ákvörðun Reykjaneshafnar.