Óvíst hvenær listi yfir hlutabótafyrirtæki birtist

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir ómögulegt að svara því hvort listi yfir fyrirtæki sem nýtt hafa hlutabótaleiðina verði birtur á morgun. Persónuvernd úrskurðaði í gær að í ljósi almannahagsmuna eigi að birta listann. Þá sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálstofnunar, að listinn yrði líklega birtur í dag eða á morgun. Unnur segir að núna fari persónuverndarfulltrúi stofnunarinnar yfir málið.

Talsverð vinna liggi að baki því að setja saman listann. Þá þurfi að taka afstöðu til þess hvort fyrirtæki, sem óskað hafa eftir því að draga sig út úr hlutabótaleiðini og endurgreiða það sem sparaðist með launakostnaði, eigi að vera á listanum.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa kallað eftir því að listinn verði birtur. Unnur segir að ekki hafi borist fyrirmæli um hvaða upplýsingar eigi að vera á listanum. Hún gerir ráð fyrir því að aðeins verði birt nöfn fyrirtækjanna en ekki fjárhæðir bóta enda hafi ekki verið farið fram á það.