Nær ekki fyrri tekjum fyrr en 2024

14.05.2020 - 10:30
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Samkvæmt verðmati Capacent á Icelandair á félagið ekki eftir að ná sömu tekjum og það var með 2019 fyrr en 2024. Niðurstaða kjarasamninga skipti miklu máli fyrir framtíð félagsins og virði þess.

99% samdráttur apríl

Það er nokkuð ljóst að fluggeirinn er að glíma við verstu kreppu sem riðið hefur yfir í þessum geira. Þetta á við um nær öll flugfélög um allan heim. Samdráttur í flugi er mikill. Fram kemur á vefnum Túristi.is að fyrstu fjóra mánuði ársins hafi farþegum sem fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fækkað um 53%. Á þeim tíma fóru um 990 þúsund farþegar um flugstöðina miðað við rúmar tvær milljónir á sama tíma 2018. En þetta segir ekki alla söguna því staðan í mars og apríl er ekki glæsileg. Farþegum fækkaði um 63% í mars og um 99% í apríl þá fóru aðeins rúmlega þrjú þúsund farþegar um flugstöðina.

Ástandið alvarlegt

Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá Capacent, segir að ástandið sé mjög alvarlegt. Langflest flugfélög eigi í vanda. Tekjusamdrátturinn sé á bilinu 70-90%.

„Það ræður ekkert fyrirtæki við það. Sama í hvaða rekstri það er,“ segir Snorri.

Samsetning flugs hafi áhrif. Bandarísk flugfélög komi aðeins betur út úr ástandinu vegna umfangs innlandsflugs þar. Snorri bendir á að flugrekstur sé viðkvæmur og næmur fyrir öllum breytingum.

„Ég skoða mörg fyrirtæki og þetta er sá rekstur sem að bara litar breytingar á ytri forsendum hefur gríðarlega mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Snorri Jakobsson

80% lækkun frá COVID

En hver er staða Icelandair núna? Hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 80% frá því að farsóttin braust út. Snorri bendir á að fjölgun ferðamanna sem hingað komu hafi leitt til þess að gengið hafa styrkst mjög mikið. 

„Það leiddi til þess að stærsti kostnaðarliður Icelandair, sem er launakostnaður, hækkaði mjög hratt. Ofan á þetta þá var mikil eftirspurn eftir starfsfólki í fluggeiranum svo að það var mikið launaskrið. Svo þessi liður var kannski hálf stjórnlaus,“ segir Snorri. Fjárfestar séu að leita eftir því að það sé meiri stjórn á hlutunum.

Fjárfestar vilja stöðugleika

Það er kunnar en frá þurfi að segja að stjórnendur Icelandair vilja að launakostnaður flugstétta veðri lækkaður umtalsvert. Það sé krafa fjárfesta og lykilatriði til að væntanlegt hlutafjárútboð nái fram að ganga. Samningar hafa verið gerðir við flugvirkja en ósamið er bæði við flugmenn og flugfreyjur. Sáttafundi var slitið með flugfreyjum í dag eftir stutta setu. Í verðmati Capacent kemur fram að launakostnaðarhlutfallið ráði mestu um framtíð félagsins. Snorri segir að launakostnaðurinn sé sú breyta sem stjórnendur geti haft mest áhrif á. Fjárfestar séu að leita eftir stöðugleika.

„Það eru gríðarlega miklar sveiflur í þessum rekstri og rekstrarmódelið er mjög næmt fyrir ytri breytingum. Menn vilja sá meiri stöðugleika í launakostnaði.“

En er hægt að segja að launin hjá Icelandair séu há? Snorri bendir á að gengið hafi reyndar lækkað á þessu ári. Hann hafi skoðað launin fyrir nokkrum árum.

„Þetta fer eftir því hvernig laun eru mæld og hvort að það séu mæld ýmis fríðindi. Dagpeningar eru til dæmis skattfrjálsir. Hundrað og fimmtíu þúsund krónur í dagpeningum er ígildi 250 þúsund króna tekna fyrir skatt. Svo það eru umtalsverð fríðindi og svo hugsanlega fríar flugferðir. Þegar ég skoðaði þetta þá því miður sýndist mér, þó að samanburður sé erfiður, að laun hjá Icelandair hafi almennt verið frekar há. Meira að segja í samanburði við flugfélag eins og SAS sem við viljum kannski bera okkur saman við,“ segir Snorri.

Tekur langan tíma að byggja upp

Það hefur verið að renna upp fyrir fólki að kórónukreppan mun vara mun lengur en talið var í upphafi. Í verðmati Capacent kemur fram að Icelandair eigi ekki eftir að ná tekjunum sem það hafði 2019 fyrr en árið 2024.

„Þessi skopparabolta sviðsmynd sem sett var fram fyrst  að allt væri komið í fínt lag eftir 5 til 6 mánuði er ekki raunhæf. Það sem gerist er að fjöldi fólks missir vinnuna. Það tapast gríðarlega miklir fjármunir. Það verður rosaleg röskun á öllum framleiðsluferlum. Það tekur bara tíma að byggja það upp,“ segir Snorri.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi