Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Milljarðar til norrænna fjölmiðla

14.05.2020 - 11:57
Mynd: Wikimedia / Wikimedia
Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið veita fjölmiðlum stuðning vegna COVID-19 sem nemur sjö og hálfum milljarði íslenskra króna. Stuðningur Dana er tæpir fjórir milljarðar og Norðmanna um fjórir komma þrír milljarðar. Alþingi hefur samþykkt að varið verði 400 milljónum króna til að styrkja einkarekna fjölmiðla hér á landi.

Samstaða á danska þinginu

Breið samstaða var á danska þinginu um að nauðsynlegt væri að styðja við bakið á fjölmiðlum sem hafa orðið fyrir talsverðum tekjumissi vegna minni auglýsingatekna. 1. apríl var samþykktur sérstakur aðgerðapakki vegna stöðunnar á fjölmiðlamarkaði. Hann gildir frá 9. mars til 8. júní og snýst um að ríkið greiði hluta af auglýsingatapi fjölmiðla. Ef samdrátturinn í auglýsingatekjum er á bilinu 30 til 50% miðað við sama tíma í fyrra nemur stuðningur ríkisins 60 prósentum af skerðingunni. Hlutur ríkisins fer í 80% ef auglýsingatekjurnar hafa lækkað um 50 til 100%. Samstaða var um þessa lausn á danska þinginu. 

Lýðræðislega umræða mikilvæg

Í tilkynningu frá þinginu er talið að heildarstuðningurinn eða framlag ríkisins geti orðið 180 milljónir danskra króna eða röskir 3,8 milljarðar íslenskra króna. Í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og átta annarra flokka segir að fjölmiðlar séu mikilvægur þáttur í fréttamiðlun almennt, sérstaklega núna í efnahagskreppunni vegna COVID-19. Mikilvægt sé að fram fari lýðræðisleg umræða. Þess vegna skipti máli að fjölmiðlar starfi áfram í þrengingunum sem nú eru og að þeim loknum. 

Viðbrögð af hálfu fjölmiðla hafa almennt verið góð en margir benda á að þörf sé á víðtækari aðgerðum vegna COVID-19.

Fá 60% af tapinu

Abid Raja menningarmálaráðherra Noregs, tilkynnti í síðustu viku að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ákveðið að styðja við norska fjölmiðla með allt að 300 milljónum norskra króna eða um 4,3 milljörðum íslenskra króna. Framlögin gilda vegna tekjutaps á tímabilinu 1. mars til 15. júní miðað við sama tíma í fyrra. Miðað er við að fjölmiðlar sem starfa á landsvísu geti sótt um stuðning ef tekjutapið er að minnsta kosti 20%. Fyrir staðbundna miðla er miðað við 15 prósenta tekjutap. Framlög frá ríkinu geta numið allt 60 prósentum af samdrættinum en fara þó ekki yfir 215 milljónir íslenskra króna. Ef  samanlagðar umsóknir fara yfir 4,3 milljarða skerðast þær sem því nemur

Milljarðar til sænskra fréttamiðla

Þá tilkynnti Amanda Lind menningarmálaráðherra Svíþjóðar á föstudaginn að ákveðið hefði verið að verja 500 milljónum sænskra króna eða 7,5 milljörðum íslenskra króna til að tryggja stöðu fjölmiðla þar í landi.

Norska fjölmiðlasamsteypan Schibsted, sem rekur fjölmarga miðla, hefur tilkynnt að skera þurfi niður um rúma sjö milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið á meðal annars Svenska Dagbladet og síðdegisblaðið Aftonbladet. Það síðarnefnda hefur upplýst að svo geti farið að segja verði upp sjötta hverjum blaðamanni. Þá hefur dagblaðið Expressen tilkynnt að það þurfi að skera niður sem nemur 1,8 milljörðum króna.
Jan Fanger, forstjóri sambands útgefenda, segir þennan styrk mjög mikilvægan. Hann áætlar að dagblöðin hafi nú þegar tapað um sex milljörðum íslenskra króna.

Þetta framlag sænska ríkisins kemur til viðbótar framlagi sem nemur þremur milljörðum íslenskra króna sem samþykkt hafði verið til að koma til móts við fyrirsjáanlegt tap fjölmiðla.

400 milljónir til einkarekinna miðla

Alþingi samþykkti á mánudag að styðja við einkarekna fjölmiðla þegar svokallaður bandormur ýmissa aðgerða vegna COVID-19 varð að lögum. Upphaflega var gert ráð fyrir að heildarupphæðin yrði 350 milljónir en hún hefur verið hækkuð í 400 milljónir. Mennta- og menningarmálaráðherra mun á næstunni gefa út reglugerð um hvernig staðið verður að úthlutuninni. Rekstur einkarekinna fjölmiðla hefur verið þungur um tíma en framlag ríkisins er fyrst og fremst til að milda tekjutap sem orðið hefur vegna COVID-19. Rekstrarstyrkurinn er ætlaður fjölmiðlum sem miðla fréttum og fréttatengdu efni. Skilyrði verða meðal annars þau að fyrirtækin séu ekki í vanskilum vegna skatta.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV