Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kanna tækifæri og ávinning af friðlýsingu landsvæða

14.05.2020 - 15:50
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Hjá SSNE er hafin vinna við að greina tækifæri sem felast í friðlýsingu landsvæða og áhrifin á nærsvæði þeirra. Einblínt verður á friðlýst svæði við Mývatn og Laxá.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hilda Jana Gísladóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) skrifuðu undir samning um þetta í vikunni. SSNE fær 7 milljónir til verkefnisins.

„Verkefnið er ein aðgerða í Byggðaáætlun 2018-2024 en er einnig hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum og að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en nú er,“ segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Við undirbúning verkefnisins leitaði SSNE eftir tillögum sveitarfélaga í landshlutanum að svæðum til að rannsaka og lagði stjórn SSNE til að unnið yrði með Mývatn og Laxá.

„Tilgangur verkefnisins er að greina tækifæri og mögulegan ávinning í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, s.s. náttúrutengdri ferðaþjónustu. Þá verða hugmyndir mótaðar í víðtæku samráði við heimafólk, fyrirtæki og stjórnvöld um þróun friðlýstra svæða, auk þess að skoða hvaða áskoranir og tækifæri þau geta skapað byggðarlögum,“ segir jafnframt í tilkynningu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.