Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fiskeldi í vexti og aukin hætta á tjóni í vetrarveðrum

14.05.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Matvælastofnun útilokar ekki að eldislax hafi sloppið þegar gat kom á sjókví í fiskeldi Arnarlax í Patreksfirði í síðasta mánuði. Í vaxandi sjókvíaeldi aukist líkurnar á slíkum atvikum í vondu vetrarveðri.

Það var 15. apríl sem Matvælastofnun barst tilkynning um eins metra breitt gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Eyri í Patreksfirði. Í kvínni voru um 100.000 laxar. Gatið var á botni nótarpokans á 35 metra dýpi.

Í svörum Matvælastofnunar, við spurningum fréttastofu sem sendar voru í kjölfarið, kemur fram að net hafi verið lögð út í samráði við Fiskistofu til þess að kanna hvort strok hafi átt sér stað. Enginn lax hafi veiðst í netin og litlar líkur séu taldar á því að fiskur hafi sloppið. Þó ekki sé hægt að útiloka slíkt.

Matvælastofnun hafa borist fjórar tilkynningar um gat eða göt á nótarpokum í sjókvíaeldi fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum síðasta hálfa árið. Í svörum MAST við því hvort þessi tíðni teljist eðlileg, kemur fram að fiskeldi sé í vexti og veðrasamt hafi verið fyrstu mánuði ársins. Það auki líkurnar á frávikum sem þessum.

„Matvælastofnun telur ekki ástæðu til þess að endurskoða þau rekstrarleyfi sem eru í gildi þar sem rekstraraðilar haga sinni starfsemi samkvæmt gildandi lögum,“ segir jafnfram í svörum MAST.