Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svara gagnrýni að markaðsátak sé að hluta selt úr landi

Mynd með færslu
 Mynd: rstefano12 - Pixbay
Ríkiskaup og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa svarað gagnrýni sem sprottið hefur upp vegna markaðsátaksins „Ísland - saman í sókn.“ Ríkið ætlar að verja 1.500 milljónum króna í átakið þar sem Ísland verður kynnt á erlendum mörkuðum. 300 milljónir fara til auglýsingastofa.

Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi, í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel, fékk hæstu einkunn valnefndar sem fór yfir innsend tilboð fyrir markaðsverkefnið. Gagnrýnt hefur verið að stærsta verkefnið á auglýsingamarkaði hér hafi verið falið erlendri auglýsingastofu. 

Valgeir Magnússon, stjórnarformaður íslensku auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt þetta og talið að keppni um útboðið hafi ekki verið jöfn.

Hafa aðgang að EES-svæðinu og öfugt 

Ríkiskaup hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar er undirstrikað að tilboð séu valin út frá fyrir fram gefnum valforsendum sem koma fram í útboðsgögnum. Þá byggja lög um opinber innkaup á þeirri forsendu að Ísland er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og er því skylt að auglýsa útboð með öðrum EES-ríkjum ef fjárhæðir fara yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

„Með þessum hætti hafa íslensk fyrirtæki einnig aðgang að útboðum um alla Evrópu. Þetta fyrirkomulag er til að auka hagvöxt á Evrópska efnahagssvæðinu og draga úr spillingu,“ segir í tilkynningu Ríkiskaupa.

Virðisaukaskattur fer í ríkissjóð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar er það áréttað að virðisaukaskattur er greiddur af vöru eða þjónustu óháð því hvaðan hún er keypt. Í þeim tilvikum þar sem vara eða þjónusta er keypt erlendis frá fellur skattskyldan á kaupandann. 

Í þessu tilviki kaupir Íslandsstofa þjónustu af erlendri auglýsingastofu og er því virðisaukaskattskyld sem kaupandi þjónustunnar.