
Pompeo kominn til Ísrael til að ræða landtökubyggðir
Heimsóknin á sér stað áður en ný ríkisstjórn Benjamín Netanjahús og Benny Gantz tekur við völdum á morgun. Samkomulag náðist þeirra á milli um ríkisstjórnarsamstarf eftir fjórðu kosningarnar þar í landi á innan við ári.
Netanjahú hefur verið afdráttarlaus um vilja sinn um að innlima Vesturbakkann, sem tilheyrir Palestínu og styður Bandaríkjastjórn þær fyrirætlanir. Sáttmáli nýrrar Ísraelsstjórnar kveður á um að Ísrael ráðfæri sig við Bandaríkin áður en farið er af stað í innlimun landtökubyggðanna.
Áður en Pompeo hélt til Ísrael sagðist hann ekki ætla að gefa tilmæli um innlimunina. Fyrirætlun heimsóknarinnar væri einungis að fræðast um hvernig Ísraelar ætla sér að fara að.
Telur Bandaríkjastjórn vilja innlimun sem fyrst
Daniel Shapiro, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, gaf lítið fyrir orð Pompeo í viðtali við AFP fréttastofuna. Hann telur að ríkisstjórn Trump Bandaríkjaforseta vilji að innlimun eigi sér stað sem fyrst, til að auka vinsældir Trump í augum Bandaríkjamanna sem eru hliðhollir landtöku Ísraela í tæka tíð fyrir forsetakosningar í nóvember.
Shapiro telur líkur á því að Netanjahú láti reyna á að drífa í innlimun landtökubyggðanna til að tryggja Trump aukið fylgi og um leið sjá til þess að í Bandaríkjunum sitji áfram ríkisstjórn sem er honum að skapi. Það gæti hins vegar verið áhættusamt fyrir ríkisstjórn Netanjahús. Gantz, sem tekur við af Netanjahú í forsætisráðherrastóli eftir hálft annað ár, er hlynntur innlimun landtökubyggðanna, en vill fara hægt í sakirnar til að halda friðinn fyrir botni Miðjarðarhafs. Ef óvarlega er farið sé til dæmis hætta á að friðarsamningur Ísrael við Jórdana frá 1994 haldi ekki.
Ísraelskur hermaður lét lífið á Vesturbakkanum í gær eftir að Palestínumaður kastaði í hann steini. Sveit hermannsins hafði verið að leita uppi grunsamlega einstaklinga í nánd við borgina Jenin í Palestínu, að sögn ísraelska hersins.