Jafnvel unnt að aflétta sóttkvíarkröfu fyrr en 15. júní

13.05.2020 - 22:36
Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnalæknir segir vel koma til greina að aflétta fyrr kröfunni um að fólk sem kemur hingað til lands fari í tveggja vikna sóttkví. Verði allt til reiðu um mánaðamótin, ætti að vera hægt að gera breytinguna þá. 

Fólk sem kemur til landsins frá og með 15. júní getur í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví valið um að fara annaðhvort í skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli eða framvísa heilbrigðisvottorði. Sóttvarnalæknir var í Kastljósi í kvöld spurður hvort unnt væri að aflétta sóttkvíarkröfunni fyrr en 15. júní.

„Ég held að sú dagsetning gæti verið fyrr ef menn eru tilbúnir með útfærsluna á þessu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

En þegar þú segir fyrr, getur þá verið að við séum að tala um mánamótin maí/júní?

„Ég held að það gæti bara komið til greina eins og ég hugsa það en eins og ég segi þá eru það stjórnvöld sem ákveða þetta endanlega. Þegar menn eru tilbúnir með útfærsluna, búnir að fara í gegnum allt ferlið og allir tilbúnir, þá ættu menn hreinlega að geta farið af stað,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir viðbúið að kórónuveirusmitum geti fjölgað hér á nýjan leik.  

„Við þurfum alveg að vera við því búin, sama hvað við gerum, að það komi einhvers konar bakslag. Það komi einhver tilfelli upp og það er ekki heimsendir sem felst í því. Við erum með ákveðið skipulag hér innanlands til að takast á við svona sýkingar og við höfum sýnt það fram að þessu að það virkar mjög vel,“ segir Þórólfur.

Mestu skipti að hver og einn hugi að sínum sóttvörnum.