Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlé gert á fundi Icelandair og flugfreyja

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Hlé var gert á fundi samninganefnda Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands hjá ríkissáttasemjara laust fyrir klukkan hálf tvö í nótt. Fundurinn hafði staðið síðan klukkan átta í gærkvöld, í um fimm og hálfan tíma.

Samninganefndir mæta aftur til fundar klukkan ellefu í dag. Ekki náðist í fulltrúa samninganefndanna þegar fundi lauk. 

Mikið hefur borið í milli í kjaraviðræðum þeirra til þessa, en flugfreyjur telja að tilboð sem Icelandair lagði til á sunnudag hafi falið í sér 40 prósenta kjaraskerðingu. Flugfreyjur söfnuðust saman fyrir framan húsnæði Ríkissáttasemjara í kvöld til að sýna samninganefnd Flugfreyjufélagsins stuðning. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafnaði því í kvöldfréttum að slík skerðing fælist í tilboði fyrirtækisins.