Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa borist fjölmargar fyrirspurnir frá framleiðendum

13.05.2020 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslandsstofa hefur undanfarnar vikur fengið á þriðja tug fyrirspurna frá erlendum kvikmyndaframleiðendum vegna mögulegrar framleiðslu hér á landi.

„Við höfum fengið margar fyrirspurnir frá stórum fyrirtækjum undanfarið, það er óhætt að segja það,“ segir Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu. Hann vill þó ekkert gefa uppi um hvaða kvikmyndaver það eru sem hafa sýnt áhuga á því að koma og taka upp á Íslandi.

Ríkisstjórnin kynnti í gær afléttingu á ferðatakmörkunum til landsins, meðal annars útvíkkun á svokallaðri sóttkví B, sem gildir um fólk sem kemur hingað til lands sérstaklega til að starfa tímabundið við ákveðin verkefni. Það mun ekki þurfa að fara í sóttkví að því gefnu að það fari aðeins til vinnu og heim til sín. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagðist í gær vona að þessar aðgerðir komi til með að hafa jákvæð áhrif á kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Einar tekur í sama streng.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Nú hafa þeir sem hafa verið að skoða möguleikann á að koma hingað skýr svör og geta tekið ákvarðanir. Samtölin hafa verið að minnsta kosti verið mjög jákvæð og áhuginn er mikill,“ segir Einar.

Íslandsstofa sendir tilkynningu á kvikmyndaverin vegna þessarar breyttu stöðu síðar í vikunni.

„Við erum að undirbúa fréttatilkynningu sem verður send á erlend kvikmyndatökufyrirtæki og þá miðla sem fjalla helst um þennan geira. Vonandi mun það kveikja í fleirum sem hafa áhuga á að koma. Það yrði mikill fengur af því ef þetta gengur upp,“ segir Einar.