Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gefur von um að einhverjir ferðamenn sjáist hér í sumar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir aukna bjartsýni ríkja um það að einhverjir erlendir ferðamenn komi hingað til lands í sumar. Nýjasta útspil stjórnvalda að opna landamærin með takmörkunum í síðasta lagi 15. júní gefi von um betri tíð.

„Það er mjög mikilvægt að geta horft lengra fram í tímann en við höfum getað gert hingað til. Ég tel að ef allt gengur svona vel þá ættum við að geta séð einhverja umferð ferðamanna hér í sumar. Fyrir þá sem virkilega vilja koma þá verður þetta mjög klár möguleiki,“ Það eru mjög margir sem eru ekki búnir að afbóka ferðirnar sínar í sumar og ég tel ekkert ólíklegt að það fólk vilji koma, ef þeirra lönd gefa leyfi og eru ekki með ákvæði um sóttkví þegar það kemur til baka og þess háttar,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í Morgunútvarpinu á Rás tvö.

Hún ítrekar að flugsamgöngur séu forsenda fyrir því að ferðaþjónustan nái sér á réttan kjöl og að þar sé framtíð Icelandair lífsspursmál fyrir greinina.

„Það iðar öll ferðaþjónustan í heiminum alls staðar eftir því að fá að hefja aftur starfsemi. Það er náttúrulega mikilvægt fyrir hagkerfi heimsins að fá þetta í gang sem allra fyrst. Það er mikið í húfi að Icelandair haldi áfram starfsemi og í rauninni lífsspursmál fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi að svo verði. Það er vonandi að fólk átti sig á því líka að þetta snýst ekki bara um Icelandair heldur er öll ferðaþjónustan á Íslandi undir, og ekki bara ferðaþjónustan heldur bara hagkerfið okkar og samfélagið allt,“ sagði Bjarnheiður.