Gæslan steypir yfir olíuleka úr El Grillo í Seyðisfirði

13.05.2020 - 19:25
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Aðgerðir standa nú yfir á Seyðisfirði til að stöðva olíuleka úr flaki breska tankskipsins El Grillo, sem Þjóðverjar grönduðu í seinni heimsstyrjöldinni. Flakið verður skoðað árlega til að fyrirbyggja að olía úr því mengi fjörðinn og drepi fugla.

Þurftu að hreinsa þykkt set af dekkinu

El Grillo var nánast fullt af olíu þegar því var sökkt árið 1944. Tvisvar hefur olíu verið dælt upp úr flakinu en ljóst er að þar leynist enn olía. Þegar sjór hlýnar fer hún af stað og drepur ekki síst æðarunga. Kafari Landhelgisgæslunnar fann leka úr lúgu í vetur og ríkisstjórnin ákvað að veita fé í aðgerðir. Varðskipið Þór kom til Seyðisfjarðar fyrir helgi og í dag var verið að betrumbæta mót fyrir steypu sem á að stöðva lekann. „Núna erum við búin að vera að hreinsa dekkið á skipinu til þess að koma steypumótinu alveg niður á dekk af því að það var svona set á dekkinu. Sennilega eitt fet á dýpt. Þá kom í ljós rör sem liggja í þessa lúgu sem við erum að fara að steypa yfir. Þannig að við erum búin að skera þau í burtu og þétta þau göt sem þar komu. Næsta skref er að fara út með steypumótið og koma því fyrir og ef það tekst, við ætlum að reyna það í dag, og ef það tekst þá getum við væntanlega steypt á morgun eða föstudaginn, það fer dálítið eftir veðri,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfir sprengjudeildar  og séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Kafarar fá á sig olíu

Gæslan er tilbúin með mengunarvarnargirðingar ef aðgerðir skyldu framkalla meiri leka og Þór er einnig með útbúnað til að ná olíu úr sjónum. Sjö kafarar taka þátt í aðgerðunum. Þeir hafa fengið á sig olíu úr flakinu og eru vaskaðir upp þegar þeir koma úr kafi. „Það var dálítill olíuleki þegar við komum á staðinn en við byrjuðum á því að leggja lóð ofan á þessa lúgu á kantana á henni. Þá minnkaði hann strax og það sem við höfum áhyggjur af núna er að lúgan sé orðin svo léleg þannig að við verðum að styrkja hana áður en við getum steypt ofan á hana,“ segir Sigurður og bætir við að sjáanlegur olíuleki hafi nánast horfið eftir að lóðin fóru ofan á lúguna.

Flakið vaktað framvegis

Ráðstafanir eru gerðir til að hægt sé að tappa olíu úr tankinum í gegnum lúguna síðar. „Þá göngum við þannig frá því að það er hægt að fara ofan í hann og dæla upp úr honum. Það verður settur rörstubbur sem stendur upp úr steypunni og niður í lúguna. Þá er ekkert annað en að bora þar niður og þá er hægt að ná olíu upp. Ég held að það sé meiningin að reynt verði að fara allavega einu sinni á ári og fylgjast með þessu. Eins ef það kemur upp einhver óvæntur olíuleki þá vænti ég að brugðist verði við því,“ segir Sigurður Ásgrímsson.