Flugfreyjur mynda hjarta til stuðnings samninganefndar

13.05.2020 - 11:09
Mynd: Haukur Holm / Haukur Holm
Hópur flugfreyja hefur safnast saman fyrir utan húsakynni ríkissáttasemjara til að styðja við samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands sem nú situr á fundi með Icelandair hjá Ríkissáttasemjara. Fundurinn hófst að nýju klukkan ellefu en honum var frestað klukkan hálf tvö í nótt eftir að hafa staðið yfir í rúmar fimm klukkustundir. Flugfreyjurnar tóku á móti Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, starfandi formanni flugfreyjufélagsins, með dynjandi lófataki þegar hún mætti til fundarins.
Mynd: Guðmundur Bergkvist / Guðmundur Bergkvist

Mikið hefur borið í milli í kjaraviðræðum til þessa. Flugfreyjur telja að tilboð sem Icelandair lagði til á sunnudag feli í sér 40% kjaraskerðingu. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafnaði því í kvöldfréttum í gær að slík skerðing fælist í tilboði fyrirtækisins.

Klukkan 13 í dag hefst svo fundur að nýju hjá samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins, en hjúkrunarfræðingar felldu í lok apríl nýjan kjarasamning.

Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda hjá ríkissáttasemjara.
 Mynd: Haukur Holm
Af fundi hjá ríkissáttasemjara
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi