Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bolsonaro grunaður um misbeitingu valds

13.05.2020 - 07:11
epa08310757 A handout picture made available by the Presidency of Brazil shows Brazilian President Jair Bolsonaro during a press conference in Brasilia, Brazil, 20 March 2020. Bolsonaro insisted that the Brazilian economy cannot be paralyzed by the measures adopted by regional and municipal governments to stop the advance of the coronavirus and asked that regional leaders think of the country as a whole.  EPA-EFE/Isac Nobrega / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Mynd: EPA-EFE - Presidency of Brazil
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er grunaður um misbeitingu valds og um að reyna að koma í veg fyrir rannsókn brasilísku alríkislögreglunnar á fjölskyldu sinni. Myndband af honum frá ríkisstjórnarfundi sýnir hann hafa í hótunum um að reka dómsmálaráðherra úr stóli.

Samkvæmt fréttastofu Reuters sést Bolsonaro segja í myndbandinu að fjölskylda sín sé ofsótt og að hann vilji fá lögreglustjóra brasilísku alríkislögreglunnar í heimaborg sinni, Rio de Janeiro, skipt út. Hann hóti því að annars muni hann sjálfur skipta út dómsmálaráðherra og forstjóra alríkislögreglunnar. 

Myndbandið er nú sönnunargagn í rannsókn á Bolsonaro sem hófst í kjölfar ásakana fyrrum dómsmálaráðherra Brasilíu, Sergio Moro, á hendur Bolsonaro. Moro sagði af sér embætti tveimur dögum eftir umræddann ríkisstjórnarfund og sagði Bolsonaro vera að reyna að eiga við rannsókn alríkislögreglunnar. Moro segir myndbandið staðfesta ásakanir hans og hefur kallað eftir því að það sé gert opinbert. 

Bolsonaro kveðst ekki hafa áhyggjur af rannsókninni. Myndbandinu hefði reyndar átt að vera búið að eyða, en í því heyrist hann aldrei segja orðið alríkislögregla, og því væri það ónothæft í ásökunum gegn honum. Hann skrifaði þá á Twitter að birta mætti hvaða hluta myndbandsins sem er, hans vegna.

Ríkissaksóknari Brasilíu mun að frekari rannsókn lokinni taka ákvörðun um hvort Bolsonaro verði ákærður fyrir hindrun réttlætisins og misbeitingu valds.