Auka notkun á moltu við ræktun og landgræðslu

13.05.2020 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Í dag var undirritað samkomulag um aukna nýtingu á moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Verkefnið er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Það voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, sem undurrituðu samkomulagið. Verkefnið er stutt fjárhagslega af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, en Vistorka sér um framkvæmdina í samstarfi við Akureyrarbæ, Orkusetur, Moltu, SkógræktinaLandgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Stórt skref við nýtingu á lífrænum úrgangi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir þetta stórt skerf, eins og öll skref sem stigin séu til þess að nýta úrgang betur. Ekki síst lífrænan úrgang. „Þetta er hluti af því að innleiða nýja hugsun og nýtt kerfi við að umbylta í rauninni hugsunarhættinum og framkvæmdinni á því hvernig við umgöngumst úrgang. Það er að segja búum til verðmæti úr úrganginum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Umhverfisráðherra gróðursetti nýtt yrki af birki sem þróað hefur verið og nefnist Hekla

Raungera hugmyndina um hringrásarhagkerfið

Og hann bendir á að lífrænn úrgangur valdi útblæstri gróðurhúsalofttegunda ef hann er urðaður. Og stærsti hluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs sé vegna losunar við urðun á lífrænum úrgangi. „En ef búin er til molta úr honum og hún síðan notuð sem áburður, hvort sem er í landgræðslu og skógrækt, þess vegna í landbúnaði, þá erum við virkilega farin að taka þessa hugmynd um hringrásarhagkerfið og raungera hana. Þannig að þetta er mjög mikilvægt og gott skref og gaman að taka þátt í þessu hérna með Eyfirðingum.“

Skógrækt, landgræðsla og repjurækt

Þessu verkefni á Norðurlandi er skipt í þrennt. Í fyrsta lagi verður ráðist í skógrækt á útivistarsvæði í nágrenni Akureyrar. Þar verða 10 háskólanemar í vinnu í sumar við undirbúning svæða, gróðursetningu, girðingarvinnu og dreifingu á moltu. Í öðru lagi verður molta nýtt til landgræðslu á Hólasandi og nýtt þar sem áburður á birki. Síðan verður ráðist í tveggja ára verkefni þar sem molta verður nýtt við repjurækt í Eyjafirði.

Moltan mikilvæg til að minnka notkun á innfluttum áburði

Og umhverfisráðherra segir að ráðist verði í svipað verkefni á Reykjanesi þar sem molta verði notuð við langdræðslu og fleira. „Ef við horfum til næstu framtíðar er þetta það sem við verðum að gera. Við þurfum að finna moltunni farveg og að nota hana sem áburð er gríðarlega mikilvægt. Ekki síst vegna þess að tilbúni áburðurinn, sem er náttúrulega mikið notaður, er líka að valda útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Og þess vegna er mjög mikilvægt að nota alla þessa lífrænu strauma sem við höfum til þess að draga úr notkum á slíkum áburði. Þó svo að henni verði kannski ekki hætt einn, tveir og þrír.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi