Vinsælasta sjónvarpsefni veraldar

Mynd: EPA-EFE / EPA

Vinsælasta sjónvarpsefni veraldar

12.05.2020 - 07:20

Höfundar

170 milljónir Indverja horfa á 40 ára gamla sjónvarpsseríu, 10 sinnum fleiri en horfðu lokaþættina af The Big Bang Therory og Game of Thrones. Útgöngubann hefur verið í Indlandi í tvo mánuði og fátt sameinar kynslóðirnar meira en eldgamalt og endursýnt trúarlegt sjónvarpsefni.

Í útgöngubanninu á Indlandi hafa gamlir sjónvarpsþættir náð fordæmalausum vinsældum og mestra vinsælda njóta maraþon sjónvarpsseríur frá níunda og tíunda áratug síðustu aldar, einkum goðsögulegu þáttaraðirnar Mahabharata og Ramayana. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur gátu reyndar séð fyrstu þættina af Mahabharata árið 1990 og nefndust þeir Vargöld á ástkæra ylhýra. Margar kynslóðir á Indlandi horfa nú saman á þessa þætti. Gamla fólkið endurnýjar kynnin við þessa fornu þáttaröð með unga fólkið sér við hlið sem var ekki einu sinni fætt þegar þættirnir voru sýndir á ofanverðri síðustu öld. 

Baða sig og skreyta sjónvarpið

Hundrað og sjötíu milljónir manna horfðu endursýningu á fyrstu fjórum þáttunum af Ramayana og tugir milljóna horfa á hvern einasta þátt. Þættirnir voru fyrst sýndir 1987 og 1988 og nutu fádæma vinsælda en þeir eru byggðir á goðsögunni um hindúaguðinn Ramayan og fjórtán ára útlegð hans. Göturnar tæmdust á sunnudagsmorgnum þegar nýr þáttur var sýndur. Umferðarniðurinn þagnaði, flestum búðum var lokað og almenningssamgöngur lömuðust. Fólk baðaði sig sérstaklega áður en þættirnir fóru í loftið og sjónvarpið var iðulega blómum skreytt. Oft voru hundrað áhorfendur í kringum eitt sjóvarpstæki. Í höfuðborginni Delhi, þurfti að breyta fundatíma ríkisstjórnarinnar, þegar ráðherrarnir hættu að mæta vegna sýninga á Ramayan. Allt að 100 milljónir manna horfðu á hvern þátt og þjóðin var því í raun í sjálfskipuðu útgöngubanni á meðan. Borgir og bæir breyttust í draugabæli. Viðlíka áhorfstölur höfðu aldrei sést og auglýsingatekjurnar voru ævintýralegar. Þættirnir áttu upphaflega að vera 52 en vegna gríðarlegra vinsælda urðu þeir á endanum 78. Vargöld eða Mahabharata var svo sýnd í kjölfarið og nutu þeir viðlíka vinsælda. Endursýningar á þessum þáttum hafa svo náð fádæma vinsældum í útgöngubanninu vegna COVID-19. Þættirnir eru sýndir kvölds og morgna og þjóðin situr dáleidd við skjáinn, enda ekki margt við að vera í útgöngubanninu.

Indversk nostalgía í útgöngubanni

Sjónvarpsstöðin sem sýnir þættina var ekki meðal tíu vinsælustu sjónvarpsstöðva fyrir faraldurinn en nýtur nú langmests áhorfs í landinu. Á dögunum horfðu 77 milljónir manna á einn þátt af Ramayan sem er langmesta áhorf á einn þátt í sjónvarpssögunni. Til samanburðar horfðu 18 milljónir manna á lokaþáttinn af The Big Bang Theory og 19,3 milljónir horfðu á lokaþáttinn af Game of Thrones eða Krúnuleikunum. 

Trúarvitund hindúa og þjóðerniskennd

Vinsældir þáttanna tengjast mjög aukinni trúarvitund hindúa og þjóðerniskennd. Ramayana þættirnir eru taldir meðal helstu orsaka Ayodhya-deilunnar, þar sem sítar og hindúar deildu um helga staði í Ayodhya í Uttar Pradesh. Endursýning þáttanna nú hefur verið olía á eldinn í þeim deilum. Rithöfundurinn Arvind Rajagopal segir að sjónvarpsserían Ramayana hafi í raun átt stóran þátt í að rjúfa einingu og kynda undir trúarbragðastríði í landinu sem hindúskir þjóðernissinnar hafi nýtt sér miskunnarlaust allar götur síðan. Margar stjörnur þáttanna áttu greiða leið inn á þing landsins og þjóðernissinnaðir stjórnmálamenn hafa siglt seglum þöndum á þeirri þjóðernis- og trúarbylgju sem fylgt hefur í kjölfar þáttanna. 

Gríðarlega strangt útgöngubann

Útgöngubann hefur verið í gildi á Indlandi í sex vikur en í vikunni verður smám saman farið að slaka á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Lestirnar fara smám saman að ganga aftur en lamaðar samgöngur hafa komið sérlega illa niður á fátækum farandverkamönnum sem eru tekju- og bjargarlausir fjarri heimabyggð. Margir hafa þurft að ganga mörg hundruð kilómetra til að komast í heimaþorpið og fjölmargir látist á leiðinni. Flestir hafa þó verið bjargarlausir með öllu í stórborgum landsins. Að jafnaði ferðast 20 milljónir manna með lestum landsins á degi hverjum en lestirnar hættu alveg að ganga í mars. Takmarkaðar lestarferðir verða til að koma farandverkafólki til síns heima en það hefur verið gagnrýnt harðlega að rukkað er fyrir ferðina, nokkuð sem fæstir farandverkamann hafa efni á. Óvíða í heiminum hefur gilt strangara útgöngubann en í Indlandi. Einhverjar tilslakanir verða gerðar en núverandi útgöngubann gildir til 17. maí. Sérfræðingar telja að ástandið á Indlandi sé margfalt verra en opinberar tölur gefa til kynna. Þeir telja að ástandið eigi enn eftir að versna og að faraldurinn nái ekki hámarki á Indlandi fyrr en í júní og júlí.