Þrennir tónleikar Sinfó í beinni á RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfó

Þrennir tónleikar Sinfó í beinni á RÚV

12.05.2020 - 16:20

Höfundar

RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands færa landsmönnum sinfóníutónleika beint heim í stofu í maí og í júní.

Dagana 20. maí, 28. maí og 4. júní taka RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands höndum saman og færa landsmönnum sinfóníutónleika beint heim í stofu í sjónvarpi og á Rás 1. Kynnir á tónleikunum er Halla Oddný Magnúsdóttir og fara þeir fram í Eldborg Hörpu. 

Hljómsveitin hefur fengið til liðs við sig nokkra af fremstu listamönnum landsins. Einsöngvarar og einleikarar eru þau Hallveig Rúnarsóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson og Víkingur Heiðar Ólafsson, og hljómsveitarstjórar eru Bjarni Frímann Bjarnason og Daníel Bjarnason.

Á fyrstu tónleikunum, 20. maí kl. 20, syngur Hallveig Rúnarsdóttir einsöng. Þar hljóma nokkur meistaraverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart, meðal annars þrjár aríur úr óperum hans. Einnig syngur hún þrjú sígild íslensk sönglög sem eiga sinn sess í huga þjóðarinnar. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason.

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfó
Hallveig Rúnarsdóttir.

Páll Óskar Hjálmtýsson stígur á sviðið fimmtudaginn 28. maí kl. 20.00. Þar flytur hann mörg af sínum þekktustu lögum og heldur uppi stuði með hljómsveitinni undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Páll Óskar kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum árin 2010 og 2011 við góðar undirtektir og komust færri að en vildu.

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfó
Víkingur Heiðar Ólafsson.

Víkingur Heiðar Ólafsson og Daníel Bjarnason koma fram á lokatónleikunum 4. júní kl. 20:00. Víkingur Heiðar er einn dáðasti píanóleikari samtímans og hefur hlotið lof um allan heim fyrir tónleika sína og hljóðritanir á undanförnum árum. Á þessum tónleikum leikur hann einn vinsælasta píanókonsert Mozarts, þann nr. 23, og auk þess stutt og glaðvært einleiksverk meistarans. Einnig hljómar Allegretto úr sjöundu sinfóníu Beethovens sem er meðal hans allra virtustu tónsmíða. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Seiðmagnaður djass á lokatónleikum Heima í Hörpu

Klassísk tónlist

Beethoven og blásarar Sinfóníuhljómsveitarinnar

Klassísk tónlist

Heima í Hörpu: Kvintett úr Sinfóníuhljómsveitinni

Klassísk tónlist

Gissur Páll og Árni Heiðar í Eldborg