Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skimun eða vottorð í stað sóttkvíar frá 15. júní

12.05.2020 - 15:28
Mynd: RÚV / RÚV
Núverandi fyrirkomulag á ferðatakmörkunum gildir til 15. maí en þá tekur gildi útvíkkun á núgildandi reglum um sóttkví. Hún mun ná til þeirra sem koma hingað til starfa við afmörkuð verkefni, svo sem fólk sem starfar í fjölmiðlum, vísindum og íþróttum. Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun tillögur vinnuhóps um afléttingu ferðatakmarkana vegna COVID-19. Þetta tilkynnti Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundi nú fyrir stundu.

Auk breytinga sem taka gildi 15. maí er stefnt að því að eigi síðar en 15. júní geti þeir sem koma til landsins, ferðamenn jafnt sem Íslendingar, farið í skimun á Keflavíkurflugvelli í stað þess að sæta tveggja vikna sóttkví reynist prófið neikvætt. Niðurstaða úr skimun getur legið fyrir samdægurs. Auk þess stendur ferðafólki til boða að skila inn vottorði sem sýnir fram á sýnatöku erlendis. Meti íslensk heilbrigðsyfirvöld þau áreiðanleg þarf viðkomandi ekki að sæta sóttkví. Þá verður þess krafist að þeir sem komi hingað til landsins hlaði niður smitrakningarappinu og noti það. 

Á næstu dög­um verður farið í hagræna grein­ingu á aðgerðunum, sem verða um­fangs­mikl­ar. Katrín sagði að samfélagið væri samt sem áður vel í stakk búið til að ráðast í þær. Þá gæti skimunin verið gott og mikilvægt tæki­færi til að læra meira um veiruna og út­breiðslu henn­ar og deila þeim upplýsingum með öðrum. 

Katrín sagði að tillagan væri sett fram með þeim fyrirvara að ekki verði bakslag eða önnur bylgja smita.  Þá verður þetta fyrirkomulag endurmetið að tveimur vikum liðnum. Veirufræðideild Landspítala mun sjá um sýnatökuna en ljóst er að hún verður kostnaðarsöm. Hún sagði þetta varfarið skref og að það skipti máli að aflétta takmörkunum í skrefum svo Ísland komi vel út úr faraldrinum. 

 

 

Þá var einnig samþykkt tillaga sóttvarnarlæknis þess efnis að Færeyjar og Grænland yrðu tekin út af lista um hááhættusvæði. 

Forsætisráðherra boðaði til blaðamannafundar um afléttingu ferðatakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins fyrr í dag. Á fundinum kynntu dóms­málaráðherra, heil­brigðisráðherra, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, ferðamálaráðherra og sótt­varna­lækn­ir næstu skref.