Segir að kjararýrnun samkvæmt tilboði sé ekki 40%

12.05.2020 - 19:55
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Kjararýrnunin hjá flugfreyjum er ekki 40 prósent samkvæmt tilboði Icelandair, að sögn forstjóra fyrirtækisins, Boga Nils Bogasonar. Hann segir að verið sé að óska eftir breytingum á samningunum þannig að vinnuframlag verði meira og að launin verði líkari því sem gerist hjá flugfélögum sem Icelandair beri sig saman við og þá eigi hann ekki við lággjaldaflugfélög.

Fundur hefst klukkan 20:00 hjá Flugfreyjufélagi Íslands og Icelandair. „Þrátt fyrir þessa stöðu, sem við erum í í dag, þá er ég bjartsýnn á það að okkur, starfsmönnum hjá icelandair, takist að leysa þetta því að við erum að vinna með samninga sem byggja á mjög gamalli sögu, þeir eru flóknir og mörg ákvæði í þeim sem að í raun trufla vaktaskipulag og minnka þar af leiðandi vinnuframlag og við getum gert breytingar á þeim og aukið framleiðni en á sama tíma staðið vörð um ráðstöfunartekjur langflestra starfsmanna. Ég er bjartsýnn á það að við leysum þetta í sameiningu,“ sagði Bogi í viðtali við Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum. 

Ríkisstjórnin tilkynnti í dag um tilslakanir á ferðatakmörkunum og eftir 15. júní getur fólk farið í sýnatöku í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli eða framvísað vottorði sem sýni að það hafi farið í sýnatöku erlendis. Bogi segir að þrátt fyrir að ferðalög séu að hefjast á ný þurfi Icelandair að semja um launalækkanir.  „Við þurfum að sækja nýtt fjármagn, sækja nýtt hlutafé núna á næstu vikum og óvissan er enn þá mjög mikil þrátt fyrir þessar ánægjulegu fréttir sem að bárust í dag og við ætlum að stökkva af stað og allt okkar markaðsstarf fór af stað í dag þegar við heyrðum þessar fréttir en við teljum nauðsynlegt, samt sem áður, að styrkja efnahagsreikning félagsins með útgáfu hlutafjár og þá verðum við að sýna fram á, í rauninni, langtíma samkeppnishæfni félagsins í kostnaðarliðum sem við höfum stjórn á, eins og til dæmis launakostnaði.“

Bogi vildi ekki svara því hvort Icelandair leggi fram nýtt tilboð í kvöld. Hann sagði aðeins að þau ætli að hittast og ræða málin og að hann vonaði að það gangi ágætlega. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi