Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rýmkanir á fjöldatakmörkunum jákvæðar fyrir tjaldsvæðin

12.05.2020 - 10:30
Mynd: Jón Tómas Einarsson / RÚV
Framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins að Hömrum við Kjarnaskóg á Akureyri er bjartsýnn á sumarið eftir að rýmkun á fjöldatakmörkunum var boðuð. Hann bjóst áður við meira en tug milljón króna tapi á rekstrinum í sumar.

Nú styttist í opnun tjaldsvæða en starfsemi þeirra verður með töluvert öðrum hætti en síðustu ár vegna farsóttarinnar. Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri á Hömrum, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, segir töluvert bjartara yfir nú eftir að rýmkun á fjöldatakmörkunum voru boðaðar. „Það leit nú ekkert rosalega vel út fyrst miðað við að taka 50, þá hefðum við getað tekið hérna við 300-350 manns á 2000 manna tjaldstæði“ segir Tryggvi. 

Hamrar eru á 17 aðskildum flötum

Stefnt er að því að hækka fjöldatakmarkanir í að minnsta kosti hundrað um mánaðamót. Verði þær miðaðar við 200 ætti að vera hægt að taka á móti svipuðum fjölda á Hömrum og undanfarin ár, fyrir utan stærstu kúfana. Tryggvi segir hjálpa til að tjaldsvæðið sé á sautján aðskildum flötum sem auðvelt er að skipta upp í sóttvarnarsvæði, salernishúsin séu hins vegar færri og stærri svo þar þurfi að gera ráðstafanir.

Mikið högg að missa erlendu ferðamennina

Í venjulegu árferði eru erlendir ferðamenn allt að 45% þeirra sem gista á Hömrum. Tjaldsvæðið er opið allt árið og nýtingin er góð. Faraldurinn hefur því sett töluverðan svip á svæðið nú þegar sem hefur staðið nær autt frá því samkomubann tók gildi.

„Við vorum búin að reikna okkur í meira en tug milljón króna tap yfir sumarið en það verður bara að vona hið besta,“ segir Tryggvi. Það sé mikið högg að missa erlendu ferðamennina því þótt Íslendingar verði ef til vill meira á ferðinni fylgja þeim fleiri börn og þau gista frítt. Töluverður munur sé á íslenskum ferðalöngum og erlendum, þeir erlendu þurfi miklu meiri þjónustu og upplýsingagjöf en Íslendingarnir noti meiri rafmagn og meira pláss. 

Treysta á samviskusemi gesta

Sóttvarnareglur fyrir tjaldsvæði kveða meðal annars á um að fjórir metrar séu á milli tjalda eða ferðavagna og takmarka þarf samneyti ferðahópa. Hann segir að það verði erfitt fyrir tjaldverði að framfylgja öllum reglum og í einhverjum tilvikum verði bara að treysta því að gestir fari eftir þeim.

Það hefur komið til tals að hægt verði að panta tjaldstæði fyrir fram en Tryggvi segir að sé erfitt að koma því við á Hömrum. „Það er ekki hægt eins og er að panta og undanfarin ár hefur aldrei verið þörf á því að panta og ég held við getum tekið við flestum sem vilja koma.“