Lög um vernd uppljóstrara samþykkt á Alþingi

12.05.2020 - 21:59
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Alþingi samþykkti í dag lög um vernd uppljóstrara. Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni.

Lögin gilda um starfsmenn hjá hinu opinbera og hjá einkareknum fyrirtækjum sem greina frá upplýsingum eða miðla gögnum sem sýna fram á að brot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda. Með ámælisverðri háttsemi er átt við háttsemi sem stefni almannahagsmunum í hættu, til dæmis eitthvað sem ógnar heilsu eða öryggi fólks eða umhverfis, án þess að það sé augljóst brot á lögum eða reglum. 

Samkvæmt lögunum verður óheimilt að láta starfsmann, sem ljóstrað hefur upp um mál, sæta óréttlátri meðferð, svo sem með því að rýra réttindi hans, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem miðlað hefur gögnum gjalda þess á annan hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna og 2. varaformaður Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að það sé mjög gleðilegt að lögin hafi verið samþykkt. Alþjóðastofnanir hafi ýtt á íslenska ríkið að setja slík lög og að lagasetningin hafi verið löngu tímabær. Frumvarp um slíka vernd hefur verið lagt fram sex sinnum, hið minnsta, ýmist af ráðherrum eða þingmönnum, í gegnum tíðina. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi