Leikarar The Office dönsuðu í fjarbrúðkaupi aðdáenda

Mynd með færslu
 Mynd: SomeGoodNews - YouTube

Leikarar The Office dönsuðu í fjarbrúðkaupi aðdáenda

12.05.2020 - 11:27
Leikarinn John Krasinski, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Jim Halpert í gamanþáttunum The Office, kom nýtrúlofuðu pari heldur betur á óvart um helgina þegar hann hélt fyrir þau fjarbrúðkaup með óvæntum gestum.

Krasinski hefur haldið úti YouTube þáttunum Some Good News síðan í lok mars til þess að reyna að gleðja og skemmta þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum Covid-19. Á sunnudag bauð hann Susan og John að koma í þáttinn (í gegnum fjarfundarbúnað að sjálfsögðu) en þau höfðu sent honum myndband af bónorði John sem að stældi atriðið í The Office þar sem Jim, karakter Krasinski, biður Pam um að gifta sig. 

Hann ákvað því að koma parinu lukkulega á óvart, lét vígja sig til prests og tilkynnti þeim að þau væru að fara að gifta sig á nákvæmlega þessu augnabliki, í gegnum netið. Þá kynnti hann til leiks fjölskyldur parsins og vini auk þess sem Jenna Fishcer, sem leikur Pam í þáttunum, mætti óvænt til þess að vera brúðarmær. 

Þegar Krasinski hafði lýst því yfir að Susan og John væru hjón var svo komið að síðasta óvænta glaðningnum. Hann hafði þá fengið stóran hluta af leikurum þáttanna, meðal annars Steve Carrell, Rainn Wilson, Mindy Kaling og Phyllis Smith, til þess að dansa við lagið Forever, sem er einmitt lagið sem brúðkaupsgestir Jim og Pam dansa við í The Office. Hjónunum nýgiftu að sjálfsögðu til mikillar gleði.