Esjustígur lagður með þyrlu

12.05.2020 - 23:05
Viðgerðir á einni vinsælustu gönguleið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hófust í morgun þegar leiðin á Esju upp að Steini var lagfærð. Nota þurfti þyrlu til að koma jarðvegi upp í fjallið.

Vaskur hópur vinnumanna lagði af stað upp Esjuna í morgun þar sem þeirra beið það verk að lagfæra göngustíginn sem liggur frá Mógilsá og upp að Steini. Til verksins þarf mikinn jarðveg og ekki hlaupið að því að koma honum upp í fjallshlíðina. Því var brugðið á það ráð að leigja þyrlu til að ferja efnið og fór þyrlan tugi ferða frá rótum fjallsins og upp í hlíðar þess í morgun.  

„Við erum auðvitað upp í fjalli í 500 til 600 metra hæð og hér komum við engum tækjum að öðru heldur en þyrlu eða bara handafli. Þannig að við þurfum að taka þetta svona,“ segir Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur

Um 100 þúsund manns ganga  stíginn á ári hverju. Undirlagið var orðið lélegt og skapaði beinlínis slysahættu. „Við erum að reyna að stækka útivistarsvæðið þannig að það sé ekki bara Esjustígurinn einn. Við erum að stækka útivistarsvæðið yfir á Kollafjarðarjörðina sem er mjög fallegt svæði og þar verður lagður tveggja kílómetra stígur, nýr tengistígur,“ segir Helgi.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi