Endursýningar í fyrsta sinn í 45 ár

Mynd með færslu
 Mynd: Chi-Hung Lin - Flickr.com

Endursýningar í fyrsta sinn í 45 ár

12.05.2020 - 06:37

Höfundar

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklum röskunum í samfélaginu. Stofnanir hafa lokað, samgöngur á milli landa hafa nánast hætt og víða hefur verið lagt á útgöngubann. Meðal þess sem einnig hefur orðið fyrir miklu raski á faraldrinum er japanska teiknimyndaþáttaröðin Sazae-san. Hún er okkur Íslendingum kannski ekki að góðu kunn, en margar kynslóðir Japana þekkja hana vel.

Sazae-san eru þær teiknimyndir sem lengst hafa gengið í sjónvarpi samfleytt, en verða nú að játa sig sigraðar fyrir veirunni sem veldur COVID-19. Þættirnir eru sýndir á sunnudagskvöldum, og segir Guardian að þeir marki helgarlokin fyrir mörgum Japönum. 

Fuji sjónvarpsstöðin greindi frá því í gær að eftir þáttinn næsta sunnudag verði eldri þættir endursýndir sunnudagana þar á eftir um ótilgreindan tíma. Greint verður frá áframhaldi þáttaraðarinnar eins fljótt og auðið er.

Þættirnir voru fyrst sýndir árið 1969 og hefur ekki þurft að grípa til endursýninga síðan 1975, þá vegna efnahagsaðstæðna. Nærri 16 þúsund hafa greinst með COVID-19 í Japan og yfir 600 eru látnir að sögn Johns Hopkins háskólans.