
Búast við rúmlega fimm þúsund uppsögnum til viðbótar
Samkvæmt könnuninni búast áttatíu prósent forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu við meira en 75 prósenta tekjufalli. Í öðrum greinum búast 75% við samdrætti tekna.
75 prósent svarenda sögðust hafa lækkað starfshlutfall starfsfólks og 25 prósent sögðust hafa sagt upp starfsfólki. Hlutfall uppsagna var enn hærra hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu þar sem helmingur þeirra sem svöruðu sagðist hafa sagt upp fólki.
Rúmlega 40 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum sem svöruðu könnuninni. Uppsagnir náðu til rúmlega þriggja prósenta starfsmanna þeirra, sem svarar til 5.600 uppsagna í viðskiptahagkerfinu í heild, segir í tilkynningu frá SA. Rúmlega 20 prósent áforma frekari uppsagnir á næstunni og segir að ætla megi að fyrirhugaðar uppsagnir nái til 5.500 starfsmanna, langflestar í fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu.
Þá kemur fram í könnuninni að þrjátíu prósent svarenda telji að samdrátturinn vegna faraldursins standi lengur en eitt ár en þriðjungur telur að samdrátturinn standi skemur.