Breskar tilslakanir og óskýr skilaboð

12.05.2020 - 07:08
Erlent · Bretland · Erlent
epa08272461 British Prime Minister Boris Johnson attends a panel event and reception to mark International Women's Day in 10 Downing Street, Central London, Britain, 05 March 2020.  EPA-EFE/WILL OLIVER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eftir ummæli Borisar Johnson forsætisráðherra í síðustu viku um tilslakanir á samkomubanni vegna COVID-19 veirunnar var búist við tilkynningum í þá veruna í ávarpi forsætisráðherra til þjóðarinnar á sunnudagskvöld. Það er þó fátt nýtt í uppsiglingu, skilaboðin heldur óskýr en eitt er þó nýtt: ný slagorð gegn veirunni.

,,Við verðum að vera vakandi, hafa stjórn á veirunni og bjarga mannslífum,“ sagði Boris Johnson forsætisráðherra þegar hann ávarpaði bresku þjóðina á sunnudagskvöld. Þetta nýja slagorð kemur í staðinn fyrir slagorðið undanfarnar vikur: ,,verið heima, bjargið mannslífum, hjálpið til að vernda heilbrigðiskerfið.“

Boðskapur til allra landshluta

Nýja slagorðið átti að vísa þjóðinni leiðina í vinnu í morgun, sagði forsætisráðherra. Sem fyrr, fólk ætti að vinna að heiman ef það gæti en ef það þyrfti að fara til vinnu þá að nota bílinn, ganga eða hjóla. Helst ekki nota almenningssamgöngur.

Þennan boðskap hefði hann borið undir alla stjórnmálaflokka og hina landshlutana.

Landshlutarnir ekki lengur samstíga

Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins leist ekki á lykilskilaboðin, þetta með að vera á verði og mörgum spurningum enn ósvarað. Í viðbót, þá væru ekki lengur sömu viðmiðanir í Englandi og svo í Skotlandi og Wales.  Landið því ekki lengur samstíga.

Skoskir sjálfstæðisþankar og veirustefnan

Þetta er í raun stórmál, nú þegar Skoski þjóðarflokkurinn málar öll mál í skoskum sjálfstæðislitum. Nicola Sturgeon fyrsti ráðherra Skotlands sagði strax í gær, þegar fréttist af nýja slagorðinu, að það hefði ekki verið borið undir skosku stjórnina og myndi ekki gilda þar. Ítrekaði svo í morgun að í Skotlandi gilti enn þetta að halda sig heima. Ekki af pólitískum ástæðum heldur einfaldlega að skoska stjórnin teldi breytingar ótímabærar.

Og svona rétt til að hnykkja enn betur á þessu: Sturgeon bað Skota að vera þolinmóða og láta ekki truflast af skilaboðum frá öðrum landshlutum. – Varla hægt að undirstrika skýrar hver réði í  Skotlandi.

Má maður hitta báða foreldra í einu?

Ruglingsleg skilaboð hafa verið helsta fréttaefni dagsins. Dominic Raab utanríkisráðherra skjöplaðist á hversu margir mættu hittast þegar hann sat fyrir svörum í morgunfréttaþætti breska ríkisútvarpsins. Það hefur gilt að maður mætti aðeins hitta einn sem maður býr ekki með. Er það þá enn þannig, má ekki hitta báða foreldra í einu? spurði fréttakonan.

,,Já,“ sagði ráðherrann en ,,nei“ er rétta svarið

Jú, sagði ráðherrann, ef fólk hefur tvo metra á milli sín. – En nei, þetta var rangt svar, ráðherrann leiðréttur. Eftir sem áður má aðeins hitta einn. En nú má vera úti eins lengi og vill, líka spila golf og körfubolta, breytingar frá og með miðvikudeginum.

Grisjur eða ekki

Fyrirfram hafði verið búist við að forsætisráðherra mælti með andlitsgrisjum á almannafæri en nei, ekki nefnt. Nicola Sturgeon mælti hins vegar með grisjum ef fólk væri á ferðinni, til dæmis í lestum eða strætisvögnum. Í þinginu í dag ráðlagði forsætisráðherra svo að hylja vitin við svipaðar aðstæður, ekki að fólk tæki grisjur frá hjúkrunarfólki.

Verkalýðshreyfingin telur öryggi starfsmanna ekki tryggt

Rauði þráðurinn í kvöldávarpi forsætisráðherra og í þinginu í dag var í raun að fólk ætti endilega að fara í vinnuna, til dæmis í byggingarvinnu og framleiðslustörf. Verkalýðshreyfingin er ósátt við að öryggi starfsmanna sé ótryggt. Og í þinginu í dag fundu þingmenn stjórnarandstöðunnar nóg að setja tennurnar í, ekki síst nýja slagorðið

Til framtíðarinnar, í þremur skrefum

Þá um framtíðina: í þremur skrefum er stefnt á að fleiri búðir opni í júní og einstakir árgangar fari þá í skóla, í júlí hugsanlega allir nemendur; skólaárinu lýkur í júlílok. Mögulega geta veitingastaðir, hárgreiðslustofur, kvikmyndahús og aðrir opinberir staðir opnað í júlí.

Kannski sóttkví, en ekki fyrir alla

Forsætisráðherra viðraði líka tveggja vikna sóttkví fyrir þá sem koma til landsins, sem skýtur skökku við þegar ýmis lönd eru að slaka á sínum ferðahömlum. Engin dagsetning tiltekin og Írar og Frakkar verða undanþegnir.

Veiruboðskapurinn úr munni grínistans

Ef einhverjir eru enn óklárir á fyrirmælum stjórnarinnar má hlusta á Matt Lucas, grínleikarann úr sjónvarpsþáttunum um Litla England, herma eftir forsætisráðherra. ,,Ekki fara í vinnuna. Farið í vinnuna. Ekki nota almenningssamgöngur. Farið í vinnuna, ekki fara í vinnuna. Verið inni. Ef þið getið unnið að heiman farið þá í vinnuna. Ekki fara í vinnuna. Farið út, ekki fara út og síðan munum við, eða ekki, kannski gera eitthvað.“

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi