Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Anthony Fauci varar við tilslökunum of fljótt

12.05.2020 - 17:55
Donald Trump og Anthony Fauci á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Anthony Fauci, helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í vörnum gegn kórónuveirufarsóttinni, varar við því að útgöngubanni og öðrum viðbúnaði verði aflétt of fljótt. Slíkt geti haft í för með sér þjáningar og dauða fjölda fólks.

Anthony Fauci var meðal sérfræðinga í heilbrigðismálum sem báru vitni í dag fyrir þingnefnd í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann hvatti þar stjórnvöld í ríkjum og borgum að fylgja leiðbeiningum sem alríkisstjórnin hefur gefið út vegna farsóttarinnar. Þær væru vandlega úthugsaðar.

Bandaríska efnahagskerfið er í frjálsu falli vegna farsóttarinnar og að minnsta kosti þrjátíu milljónir landsmanna án atvinnu. Trump forseti hefur þrýst á um að hjól atvinnulífsins fái að snúast að nýju og fólk að fara frjálst ferða sinna. Allnokkrir ríkisstjórar og stjórnmálamenn eru sama sinnis. Anthony Fauci varaði við því við yfirheyrslurnar að rasa um ráð fram. Slíkt gæti þýtt að farsóttin efldist og það hefði í för með sér þjáningar og dauða fjölda fólks.

Hann fór yfir það að vísindamenn lyfjafyrirtækja og háskóla kepptust við að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni. Segja mætti að margir væru að skjóta á sama markið um þessar mundir. Vonandi sæju vísindamennirnir árangur erfiðis síns seint í haust eða snemma vetrar.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV