Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Veiðiþjófar nýta mannfæðina í útgöngubanni

11.05.2020 - 06:27
epa07714613 A one horned Rhino on a high ground inside the Pobitora wildlife sanctuary in the flood affected Morigaon district of Assam, India, 13 July 2019. Increasing flood water has submerged 80 percent of the wildlife sanctuary and the animals are looking for high ground for shelter.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA
Einhyrndur nashyrningur var drepinn af í indverskum þjóðgarði í vikunni að sögn yfirvalda. Tegundin er einkar sjaldgæf. Veiðiþjófar hafa nýtt sér að fáir eru á ferli vegna kórónuveirufaraldursins. Dýrin hafa einnig notið góðs af því að færri eru á ferli og engin umferð um þjóðveginn við Kaziranga þjóðgarðinn í Assam héraði. Nashyrningarnir hafa hætt sér nær þjóðgarðsmörkunum, sem gerir þá að auðveldari skotmörkum fyrir veiðiþjófa að sögn yfirvalda. 

Þjóðgarðsvörðurinn P. Sivakumar sagði í samtali við AFP fréttastofuna að það líti út fyrir að nashyrningshræið hafi legið dautt í um tvo til þrjá daga. Búið er að saga hornið af honum. Veiðimenn fá allt að 150 þúsund dollara fyrir hornið á svörtum markaði, jafnvirði um 22 milljóna króna, eða um 60 þúsund dollara á kílóið. Hornin eru mikið notuð í hefðbundin kínversk lyf. 

Við hræið voru einnig átta skothylki úr AK 47, sjálfvirkum riffli. Nashyrningurinn fannst nærri vatnasvæði í garðinum að sögn Sivakumars. Hann staðfesti jafnframt að veiðiþjófur hafi verið að verki. Þetta er fyrsta veiðiþjófnaðarmálið í þjóðgarðinum í um ár. Síðustu ár á undan hafa nokkur mál komið upp. Þjóðgarðsverðir komu í veg fyrir nokkrar veiðitilraunir í garðinum í apríl. Verðirnir nutu aðstoðar sérstakrar verndarsveitar fyrir nashyrninga. 

Einhyrndir nashyrningar voru útbreiddir í héraðinu. Veiðar og landtaka hefur fækkað þeim niður í nokkur þúsund dýr. Flest þeirra eru í Kaziranga-þjóðgarðinum, eða vel á þriðja þúsund samkvæmt talningu árið 2018.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV