VAR - The Never Ending Year

Mynd: Spartan Records / VAR

VAR - The Never Ending Year

11.05.2020 - 16:50

Höfundar

Hljómsveitin VAR gaf nýverið út plötuna The Never Ending Year á heimsvísu hjá Spartan Records. Hljómsveitin er skipuð þeim Júlíusi Óttari Björgvinssyni söngvara sem spilar einnig á gítar, bassa og hljómborðsleikaranum Agli Björgvinssyni, gítarleikaranum Arnóri Jónassyni og trommaranum Sigurði Inga Einarssyni.

Hljómsveitin VAR er stofnuð árið 2013 og er upphaflega sóló-hugarfóstur Júlíusar Óttars Björgvinssonar. Fljótlega eftir að Júlíus fór af stað með verkefnið fékk hann Myrru Rós, eiginkonu sína, með sér í lið. Til tónleikahalds var hóað í Egil bróðir Júlíusar á bassa og gítarleikarann Arnór og trommarann Andra Freyr í hópinn. Í þessari mynd gaf hljómsveitin frá sér tvær stuttskífur sem komu út hjá útgáfum í Þýskalandi og Japan. Árið 2017 sögðu þau Myrra Rós og Andri Freyr skilið við hljómsveitina til þess að einbeita sér að öðru. Þegar trommuleikarinn Sigurður Ingi bættist í hópinn fór hljómsveitin að vinna að sinni fyrstu breiðskífu ásamt því að fara í tónleikaferðir til Bandaríkjanna, Japans og ýmissa Evrópulanda.

VAR fékk upptökustjórann og prodúsentinn Eið Steindórsson til að vinna með sér að The Never Ending Year og ferlið tók um ár með hléum. Platan kom út á vegum Rimeout Recordings í Japan í lok árs 2019 en Spartan Records í Seattle sá um útgáfu plötunnar á heimsvísu þann 24. apríl.

Að sögn sveitarinnar er platan töluvert hraðari og kraftmeiri en það efni sem hljómsveitin hefur áður sent frá sér og þess vegna öðruvísi. Platan var samin og tekin upp að miklu leyti í bílskúrnum hjá föður þeirra Júlíusar og Egils og má kannski segja að það hafi haft áhrif á hljóm plötunnar og gert hana kraftmeiri. Upptökustjórinn Eiður Steindórsson tók upp og pródúseraði plötuna með áhuga og þolinmæði sem sveitin VAR segir að haft hafi mikil áhrif á lokaniðurstöðuna.

Plata VAR - The Never Ending Year er plata vikunnar á Rás 2 í þessari viku. Þú getur hlustað á hana í heild sinni ásamt kynningum á lögunum í spilara hér að ofan.

VAR - The Never Ending Year