Rafmagnsreikningurinn 350 þúsund í tómu sveitahóteli

Hótelstjóri í Breiðdal hefur ekki efni á að kynda með rafmagni eins og sakir standa. Hann biður stjórnvöld að hjálpa tómum sveitahótelum að ráða við rafmagnsreikninga upp á mörg hundruð þúsund krónur. Þá væri til bóta ef fólk í dreifbýli fengi aðgang að rafmagni á sama verði og aðrir.

Á Staðarborg í Breiðdal er 30 herbergja hótel og nú er hart í ári hjá Arnóri Stefánssyni hótelstjóra. Hann svitnar yfir rafmagnsreikningum sem er að jafnaði 350 þúsund á mánuði fyrir rafmagn og dreifingu. „Það reynir mjög mikið á þetta núna. Þar er engin innkoma, enginn ferðamaður og þetta er kostnaður sem maður verður alltaf að borga. Annars er lokað á mann,“ segir Arnór.

Er eins og vélstjóri að stilla ofna og kynda með timbri

Hann deyr ekki ráðalaus heldur fer um og lækkar á ofnum eða slekkur til að spara orku og lækka næstu reikninga. „Það náttúrlega gengur ekki að fá reikninga sem maður getur ekki borgað af því að þeir eru svo háir. Þetta er afsögun úr garði á Breiðdalsvík. Ég er með allar klær úti til að ná mér í eldivið til að halda hita á hótelinu. Ég læt hitann svona leika um húsið og öll herbergin opin þannig að þetta hjálpar manni að það myndist ekki raki og annað.“

RARIK hvetur þá sem hafa dregið úr rafmagnsnotkun til að lesa af mælum og senda inn til að sparnaðurinn skili sér strax inn á reikninga. Landvirkjun hefur veitt stórnotendum afslátt það á ekki við um Hótel Staðarborg. „Ég tek stöðuna klukkan sex á hverjum degi til að sjá hvort að ég hafi náð einhverjum árangri með því að slökkva á bara sem flestu. Með því að vera í þessu vélstjórahlutverki á hverum degi og það virðist vera að gerast.“

Ósanngjarnt að fólk í dreifbýli borgi meira fyrir aðgang að rafmagni

Meirihlutinn af rafmagnsreikningum er frá RARIK bara fyrir að flytja orkuna. Þrátt fyrir svokallað dreifbýlisframlag er verðskráin talvert hærri í dreifbýli enda er meira mál að koma rafmagni á Staðarborg en til notenda í þéttbýli. Til vitnis um það er útbúnaður RARIK við húsið. RARIK skilar hagnaði og hefur verið að greiða ríkinu arð þó ekki nú vegna mikilla framkvæmda. Arnór telur að jafna mætti kostnaðinn milli dreifbýlis og þéttbýlis meira. Þá mætti hjálpa sveitahótelum og fleirum að ráða við háa reikninga þar til ferðamenn láta sjá sig aftur. „Stjórnvöld ættu að hjálpa okkur að fá afslátt, niðurfellingu eða frystingu á raforku. Óréttlætið er mikið gagnvart okkur sem erum að borga miklu hærra rafmagn á þessum köldu svæðum. Bara að fólk borgi sama verð í dreifibýli eins og annars staðar,“ segir Arnór Stefánsson, hótelstjóri á Staðarborg í Breiðdal

Horfa á frétt

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV