Óskert áætlun hjá Strætó en takmarkanir enn í gildi

11.05.2020 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Strætó hefur akstur á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt sumaráætlun frá og með mánudeginum 18. maí. Með því verður akstur óskertur samkvæmt áætlun á höfuðborgarsvæðinu, en hámarksfjöldi farþega verður áfram 30 manns. Þjónusta á landsbyggðinni verður svo áfram skert þar til annað verður tilkynnt.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að framhurð strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu verði áfram lokuð og farþegar gangi því inn um mið- eða aftari dyr vagnsins. Innra rými strætisvagnanna verður áfram skipt upp í tvo hluta. Borði er strengdur yfir fremsta hluta vagnanna til þess aðskilja svæði vagnstjóra og svæði farþega. 

Þjónusta Strætó var skert um miðjan mars enda snarfækkaði farþegum meðan strangt samkomubann var í gildi. Heilbrigðisyfirvöld veittu Strætó undanþágu svo nú mega mest vera 30 manns í einum vagni en áður máttu mest 15-18 manns vera í hverjum vagni. 30 manna takmörkun verður áfram í gildi, þó með undantekningum eins og kemur fram í tilkynningu frá Strætó.

„Hópaferðir skólabarna og skipulagðar ferðir í íþrótta og tómstundastarfi eru undanþegnar þessum fjöldatakmörkunum. Skv. tilmælum sóttvarnalæknis þá eru engar takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og engar fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskóla aldri.“

Þá eru áfram ítrekuð tilmæli að viðskiptavinir sýni varkárni í samskiptum og umgengni, þvoi hendur og spritti og takmarki snertingar á snertifleti. Þá eigi þeir alls ekki að ferðast með Strætó ef grunur leikur á smiti. Mælst er til þess að greiða fargjaldið með strætókorti eða í appinu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi