Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggur til áframhaldandi takmarkanir fyrir ferðamenn

11.05.2020 - 14:17
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Sóttvarnalæknir leggur til við heilbrigðisráðherra að áfram gildi það að allir sem koma hingað til lands, sama hvaðan, fari í tveggja vikna sóttkví. Núverandi fyrirkomulag gildir til 15. maí en lagt er til að það verði framlengt þar til framtíðar fyrirkomulag verður ákveðið.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði að hópur á vegum forsætisráðuneytisins skili tillögum um það í dag hvernig framtíðar fyrirkomulagi verður háttað fyrir þá sem koma til landsins, og þær tillögur verði hafðar til hliðsjónar í ákvörðun ráðherra. Þórólfur sagði að það sé svo margt sem þurfi að hafa í huga og þess vegna leggi hann til að fólk þurfi áfram að fara í sóttkví. Það ætti að gilda í mánuð, til viðmiðunar.

Ekkert smit hefur greinst hér á landi síðustu fjóra sólarhringa og sagði Þórólfur að hægt sé að fullyrða það meira hér en hjá nágrannaþjóðum að samfélagslegt smit sé í lágmarki. Það er vegna þess að enginn hefur tekið jafn mörg sýni í samfélaginu og Íslendingar.

„En við getum líka sagt að veiran er örugglega ekki farin úr samfélaginu,“ sagði Þórólfur.

Bakslag tengd opnun skemmtistaða

Þórólfur ítrekaði það sem áður hefur komið fram að hann leggur til að sundstaðir megi opna 18. maí. Hann skilar heilbrigðisráðherra tillögum í dag hvernig því ætti að vera háttað. Þá er hann tilbúinn með ráðleggingar um hvaða starfsemi mætti opna 25. maí.

Þórólfur sagði að hægt verði að fara í afléttingu takmarkana í þriggja vikna skrefum, en það sést frá öðrum löndum að bakslag er að koma í faraldra.

„Menn tengja það jafnan opnun á skemmtistöðum og pöbbum. Ég held við verðum að hafa það til hliðsjónar þegar við ákveðum okkar aðgerðir,“ sagði Þórólfur. Hann sagðist ekki vera búinn að ákveða hvort hann ætli að leggja til að slíkir staðir verði lokaðir fram yfir 25. maí.

Þá sagði hann að við verðum að vera undir það búin að smitum fjölgi við afléttingu aðgerða, en það sé enginn heimsendir ef það verður innan hæfilegra marga.