Engar athugasemdir við bilaðar bremsur fyrir banaslys

11.05.2020 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rannsóknarnefnd umferðarslysa
Fólksbíll sem fór út af veginum á Norðurlandsvegi í Langadal í apríl í fyrra, með þeim afleiðingum að erlendur karlmaður á sjötugsaldri lést, var með bilaðar bremsur og líkur á að hemlun afturhjóla hafi verið takmörkuð í nokkurn tíma. Bíllinn fór athugasemdalaust í gegnum skoðun þremur mánuðum fyrir slysið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið. Það varð að kvöldi 23. apríl í fyrra. Ökumaðurinn, sem var einn á ferð, missti hægri hjól bílsins út fyrir slitlag og beygði of harkalega inn á veg aftur með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum vinstra megin, valt margar veltur og stöðvaðist á hvolfi utan vegar.

Í skýrslunni kemur fram að aðstæður á veginum voru góðar. Bjart var í veðri, hægur vindur og engin úrkoma. Ökumaðurinn er talinn hafa ekið of hratt, en hraðaútreikningur bendir til þess að hraði bílsins hafi verið um 115 km/klst, +/- 14 km/klst, rétt fyrir slysið.

Ónýtar bremsur að aftan og dekkin slitin

Í skýrslu nefndarinnar er sérstaklega bent á að bíllinn, Hyundai Matrix 2007 árgerð, hafi verið á slitnum nagladekkjum með of háum loftþrýstingi. Þá voru alvarlegar athugasemdir gerðar við bremsurnar.

„Hemlaborðar að aftan voru ónýtir og líkur á að hemlun afturhjóla hafi verið takmörkuð. Stöðuhemill var óvirkur. Hemlabúnaður að framan var talsvert slitinn og breidd slitflatar undir öryggismörkum,“ segir í skýrslunni. Þar er einnig tekið fram að líkur séu á að bremsurnar hafi verð í lélegu ástandi þegar bíllinn fór athugasemdalaust í gegnum skoðun þremur mánuðum fyrir slysið.

„RNSA ítrekar nauðsyn þess að mikilvægur öryggisbúnaður ökutækja sé skoðaður af gaumgæfni á skoðunarstöðvunum og athugasemdir gerðar standist hann ekki lágmarkskröfur skoðunarhandbókar ökutækja,“ segir í skýrslunni.

Þá ítrekar rannsóknarnefndin að ökumenn bregðist rólega við ef hjólin leita út fyrir bundið slitlag. Þeir sveigji hægt inn á veginn aftur sé það hægt. Hættulegt geti verið að bremsa og stundum betri kostur að stýra bílnum út af og reyna að komast hjá því að velta.